Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:34:36 (588)

1997-10-16 15:34:36# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:34]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Við höfum rætt það áður í þinginu hvað sé hægt að gera ef þingmenn eru ósáttir við svör ráðherra við einstaka fyrirspurnum. Ég held að það verði að vera alveg á hreinu að svör við fyrirspurnum frá einstökum þingmönnum sem ráðherrar gefa eru á ábyrgð ráðherrans sjálfs. Það er ekki hægt að ætlast til þess að t.d. forseti þingsins fari að krefja ráðherra um einhver önnur og betri svör, ef ég má orða það svo. Þetta er alltaf á ábyrgð ráðherrans. Það sem ég sagði hins vegar áðan var að um leið og ríkisstofnun er gerð að hlutafélagi, og við tökum enn dæmi um Póst og síma, þá vorum við að breyta lögunum um Ríkisendurskoðun sem opnaði miklu greiðari leið en áður var og hefði reyndar verið lokuð. Núna er alveg á hreinu að Ríkisendurskoðun hefur réttinn til að endurskoða þessar stofnanir. Það ber að gera tillögu um að Ríkisendurskoðun sé endurskoðandinn. Ríkisendurskoðun getur svo aftur með vísun til, ég held það sé 4. gr., framselt það endurskoðunarvald sitt til endurskoðunarstofu út í bæ en gerir það þó undir sínu eftirliti. Þetta er sem sagt í verkahring Ríkisendurskoðunar. Og eins og ég sagði líka áðan, ef það kemur eitthvað það fram við endurskoðun sem Ríkisendurskoðun telur óeðlilegt þá mun það koma í ljós. Því verður ekkert haldið leyndu, það mun Ríkisendurskoðun ekki gera. Ég fullyrði það.