Atvinnusjóður kvenna

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:41:42 (591)

1997-10-16 15:41:42# 122. lþ. 11.6 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., Flm. DH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:41]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég legg hér fram tillögu til þál. um atvinnusjóð kvenna á þskj. 72, 72. mál. Þessa tillögu legg ég fram ásamt Arnbjörgu Sveinsdóttur. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem endurskoði og geri tillögur um framhald á starfi atvinnusjóðs kvenna.

Félagsmálaráðherra skipi tvo nefndarmenn, Byggðastofnun einn og Kvenfélagasamband Íslands einn og einn komi úr hópi atvinnuráðgjafa.``

Atvinnumál kvenna í dreifbýli hafa verið nokkuð til umræðu síðustu ár. En í gær, 15. október, var alþjóðadagur dreifbýliskvenna. En eftir kvennaráðstefnuna í Peking í Kína var ákveðið að halda þennan dag hátíðlegan til að beina sjónum að aðstæðum kvenna í dreifbýli um allan heim. Í samþykkt kvennaráðstefnunnar í Kína segir m.a. í 167. kafla um aðgerðir til úrbóta, með leyfi forseta:

,,Stjórnvöld skulu greiða götu sjálfstæðrar atvinnustarfsemi kvenna og þróun smáfyrirtækja í þeirra eigu og efla aðgang kvenna að lánsfé og fjármagni á viðeigandi kjörum sem séu þau sömu og fyrir karla. Væri þetta framkvæmanlegt m.a. með því að auka veg stofnana sem helga sig sjálfstæðum atvinnurekstri kvenna. Þetta getur t.d. falist í því að efla veg óhefðbundinna lánsfjárleiða og samvinnufyrirkomulags um lánveitingar svo og að efla nýbreytni í myndun tengsla við fjármálastofnanir.``

Með samdrætti í sjávarútvegi og landbúnaði hefur myndast þörf fyrir nýsköpun í atvinnumálum kvenna, nýsköpun sem byggir á fjölbreytni og sveigjanleika. Árið 1989 var gerð heildarúttekt á því hvernig atvinnumálum kvenna í dreifbýli væri háttað. Í kjölfar úttektarinnar var ljóst að úrbóta var þörf og var þá m.a. lagt til að konur sem hefðu verið atvinnulausar um tíma yrðu aðstoðaðar með námskeiðahaldi, að settir yrði á laggirnar kvennahópar og að þeir hópar kvenna sem þegar voru starfandi fengju aðstoð. Þá var lagt til að konur yrðu aðstoðaðar við að hefja rekstur lítilla framleiðslu- og þjónustufyrirtækja. Í framhaldi af þessu var stofnaður opinber sjóður sem sérstaklega var ætlað að styðja við og styrkja aðgerðir sem hefðu það að markmiði að efla atvinnutækifæri kvenna í dreifbýli.

Frá árinu 1991 hefur félmrh. veitt 20 millj. kr. á ári til styrktar atvinnumálum kvenna. Styrkur úr atvinnusjóði kvenna hefur án efa komið mörgum konum vel og styrkt búsetu á landsbyggðinni. Jafnvel hefur hann í mörgum tilfellum skipt sköpum um áframhaldandi búsetu þeirra í heimabyggð. Fé úr sjóðnum hefur verið veitt til margvíslegra verkefna víðs vegar um landið, m.a. til stofnunar fyrirtækja, ráðningar kvennaráðgjafa, námskeiðahalds og til að halda ráðstefnur um atvinnumál kvenna. Framlögum úr sjóðnum hefur einnig verið varið til verkefna á höfuðborgarsvæðinu nú hin síðari ár.

[15:45]

Frá fyrstu tíð hafa konur verið virkar á vinnumarkaði og atvinnuþátttaka þeirra hefur aukist jafnt og þétt hin síðari ár. Framlag þeirra hefur þó aldrei verið metið til jafns við framlag karla. Konur eru helmingur launþega og fjórðungur einyrkja og atvinnurekenda. Miðað við tölur frá árinu 1996 eru 23,7% karla en 10,8% kvenna sjálfstætt starfandi. Tölur þessar eru byggðar á vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar og unnar úr fjögur þúsund manna úrtaki. Það er mikilvægt að fólk hafi trú á sínu byggðarlagi, það takist á við breyttar aðstæður og sé opið fyrir nýjum tækifærum. Farnar hafa verið ýmsar leiðir til atvinnuþróunar á landsbyggðinni og ein af þeim leiðum eru svokölluð átaksverkefni og leitarráðstefnur. Í átaksverkefnum felst að virkja íbúa í heimabyggð til að efla það atvinnulíf sem fyrir er og koma á fót nýrri atvinnustarfsemi. Í kjölfar átaksverkefnanna hafa margar góðar hugmyndir komist í framkvæmd vegna tilkomu atvinnusjóðs kvenna. Reynslan sýnir að þar sem konur eru virkir þátttakendur í leitar- eða átaksverkefnum hafa mörg kvennafyrirtæki verið stofnuð. Þetta hafa yfirleitt verið lítil fyrirtæki því konur eru þekktar að því að fara varlega af stað, offjárfesta ekki, þær taka einfaldlega minni áhættu. Þá hafa námskeið í stofnun og stjórnun fyrirtækja gefist mjög vel.

Byggðamál og byggðaþróun eru málefni allrar þjóðarinnar. Það skiptir okkur öll máli hvernig sú þróun verður í framtíðinni. Enginn vill að landbyggðin fari í auðn og togstreitu á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar á að leggja til hliðar. Við erum ein þjóð í einu landi og eigum að standa saman sem ein heild og þannig erum við sterkari til að takast á við allan heiminn. En það er staðreynd að byggðin í landinu hefur tekið örum breytingum á síðustu áratugum. Fólki hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en fækkað nánast alls staðar á landsbyggðinni. Þessir búferlaflutningar utan af landi eru áhyggjuefni en að jafnaði hafa fjórir af hverjum tíu íbúum sem fjölgað hefur á höfuðborgarsvæðinu flutt af landsbyggðinni þegar litið er til áranna 1981--1995. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var sagt frá því að 1.500 fleiri hafi flutt á höfuðborgarsvæðið utan af landi en af höfuðborgarsvæðinu út á land fyrstu níu mánuði ársins. Flestir fluttu af Vestfjörðum og Norðurlandi eystra og af einstaka sveitarfélögum er brottflutningur mestur frá Ísafjarðarbæ og Vestmannaeyjum. Þetta er mikið áhyggjuefni. En miklar breytingar, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, eiga sinn þátt í þessari þróun. Í sjávarútvegi hefur farið fram mikil uppstokkun og þróun. Aukin fiskvinnsla um borð í frystiskipum og sókn á fjarlæg mið ásamt endurskipulagi í landvinnslu og hagræðingu í rekstri hefur gert það að verkum að minnkandi þörf hefur verið fyrir mannafla í hefðbundinni landvinnslu. Í landbúnaði hefur ársverkum stöðugt farið fækkandi og útlit er fyrir að sú þróun muni halda áfram um sinn. Afkoma bænda hefur versnað til muna síðustu ár og það er einnig mikið áhyggjuefni. Bændur tóku að fullu þátt í þjóðarsáttarsamningnum 1990 og færðu með því miklar fórnir. Þeir hafa orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu en afurðaverð til bænda hefur lækkað á árunum 1981--1996 frá 18% til 32%. Á sama tíma hefur dregið mjög úr stuðningi ríkissjóðs við landbúnaðinn. Bændur hafa hagrætt í búrekstri sínum eins og kostur hefur verið en nú er sá tími kominn að huga verður að bættum kjörum þeirra.

Herra forseti. Grundvallarbúið, þ.e. sú bústærð sem miðað er við í verðlagsgrundvelli búvöru, er 400 ærgildi í sauðfé og 440 ærgildi í nautgripum. Það er miðað við 22 kýr með geldneytum. Þessar bústærðir eru metnar á 1,6--1,8 ársverk. Þegar litið er til þróunar í sauðfjárrækt kemur í ljós að 42% bænda sem búa með hrein sauðfjárbú eru með færri en 100 ærgildi eða aðeins 1/4 af hinu svokallaða grundvallarbúi og aðeins fimm hrein sauðfjárbú eru með yfir 500 ærgildi. Í viðhorfskönnun meðal bænda sem unnin var af ÍM Gallup um mánaðamótin nóvember/desember á síðasta ári kom fram að 85% bænda eru ánægðir með starf sitt en þeir lifa ekki af ánægjunni einni saman því í þessari könnun kom einnig fram að 59% bænda voru óánægðir með kjör sín. Rúmlega 35% bænda eru með 150 þús. kr. í tekjur að meðaltali á mánuði. Um 17% heimilanna hafa lægri tekjur en 50 þús. kr. á mánuði. Aðeins 15% bænda hafa 300 þús. kr. eða hærri heildartekjur á mánuði af rekstri búsins. Miklar breytingar eiga sér nú stað í íslenskum landbúnaði, búum er að fækka en jafnframt eru þau að stækka. Tölur um fjölda kúabúa og tilfærslur á mjólkurkvóta milli bænda sýna það. Mjólkurframleiðendum hefur fækkað töluvert á landinu en nú eru um 1.250 framleiðendur en fyrir sjö árum voru þeir 1.640. Í minni sveit, Rangárvallahreppi, voru fyrir ekki svo ýkja mörgum árum hátt í 30 mjólkurframleiðendur en í dag eru þeir innan við 10.

Fjölbreytt atvinnulíf er nauðsynlegt ef mannlíf á að geta þrifist með eðlilegum hætti. Sókn er besta vörnin og margt jákvætt hefur verið að gerast í uppbyggingu atvinnumála í dreifbýlinu. Má þar til að mynda nefna loðdýrarækt sem nú er í örum vexti og þá víða sem stuðningsgrein við hlið sauðfjárræktar. Þá hefur mikil aukning verið í skógrækt og landgræðslu. En ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem mest hefur vaxið hér á landi síðustu áratugina. Hún hefur sífellt meira vægi og er afar þýðingarmikill þáttur í þjóðarbúskapnum. Aukning á ferðamönnum hefur reyndar farið fram úr björtustu vonum og á landsbyggðinni hafa risið mjög myndarleg hótel og gistiheimili sem veita fjölbreytta og meiri þjónustu við ferðamenn en áður var. Þar hafa bændur verið framarlega í flokki. Þeir hafa bætt búskaparhætti og farið í auknum mæli að þjónusta ferðamenn.

Herra forseti. Hingað til hafa konur sem hafa verið byrjaðar á rekstri fengið styrk úr atvinnusjóði kvenna. Ekki hafa verið styrkt kaup á búnaði en styrkurinn hefur farið í þróunarstarf, markaðsöflun, námskeiðahald, til kvennahópa til að ráða sérstakan kvennaatvinnuráðgjafa og til hópa sem hafa stofnsett kvennasmiðjur og styrkveitingar hafa verið til einstakra kvenna og fyrirtækja. Á vegum Vinnumálastofnunar er nú unnið að úttekt á árangri þeirra styrkja sem veittir hafa verið til kvenna á vegum sjóðsins. Það er mikil nauðsyn á að gera úttekt á því hvernig til hefur tekist þau sex ár sem kvennasjóðurinn hefur verið starfræktur, athuga hvernig hann getur nýst konum sem best í framtíðinni. Og þó að sjóðurinn kallist kvennasjóður þá kemur hann í raun öllum til góða. Að mínu áliti er enn mikil þörf fyrir kvennasjóðinn en síðan hann hóf störf hafa ýmsar aðstæður breyst bæði hvað varðar atvinnu- og byggðaþróun eins og fyrr hefur verið minnst á. Með tilliti til þessa er rétt að endurmeta úthlutunarreglur sjóðsins. Þá er einnig nauðsynlegt að skoða samspil atvinnusjóðs kvenna og annarra sjóða og atvinnuþróunarverkefna.

Að lokum, herra forseti legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og til hv. félmn.