Atvinnusjóður kvenna

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 16:11:48 (594)

1997-10-16 16:11:48# 122. lþ. 11.6 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:11]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og fleiri fagna þeirri tillögu sem hér er fram komin og langar að leggja nokkur orð í belg í þessa umræðu. Fyrst vil ég taka upp þráðinn þar sem hv. síðasti ræðumaður sleppti honum og rifja það upp að við í stjórnarandstöðunni börðumst mjög hatrammlega gegn því að þessi sjóður og reyndar önnur verkefni yrðu send inn í Atvinnuleysistryggingasjóð vegna þess að við töldum að þau ættu þar alls ekki heima. Og ég er enn á sömu skoðun og vil taka undir það sjónarmið að sjóður eða sérverkefni eins og þetta á auðvitað að vera sýnilegt. Það að til sé sérstakur sjóður sem ýtir undir frumkvæði og atvinnusköpun kvenna er sérstakt verkefni en er ekki, þarf ekki og á ekki að vera sérstaklega tengt atvinnuleysi. Og það er einmitt þessi hugmynd, einhvers konar þurfalingahugsun, sem því miður hrjáir þessa ríkisstjórn og það er alltaf verið að setja verkefnin í óæskilegan farveg. Það er svo sjálfsagt að styrkja atvinnuuppbyggingu kvenna sérstaklega, í rannsóknum og nýjum fyrirtækjum og ýta undir nýjar hugmyndir, vegna þess einfaldlega að við þurfum að þróa okkar atvinnulíf og konur hafa oft aðrar hugmyndir. Í öðrum löndum, og ég vísa þar alveg sérstaklega til Bandaríkjanna, hefur það tíðkast á undanförnum árum að hafa sérstaka lánasjóði fyrir konur og að styðja þær alveg sérstaklega. Til skamms tíma sögðu menn að langmesta nýbreytnin, nýsköpunin og flest nýstofnuð fyrirtæki væru í eigu kvenna. Þar var langsamlega mestur vaxtarbroddur. Og þarna er auðlind sem við þurfum að nýta okkur miklu betur og því þarf auðvitað að stórhækka upphæðina til þessa sjóðs.

Ég tek undir það sem stöllur mínar úr stjórnarandstöðunni hafa rifjað upp varðandi þann samning sem á sínum tíma var gerður milli Alþýðusambandsins og ríkisstjórnarinnar um að setja 1000 millj. í atvinnusköpun fyrir nokkrum árum. Það var auðvitað mjög sláandi að 60 millj. plús þessar 20 voru sérmerktar verkefni til kvenna en 920 millj. fóru til verkefna sem auðvitað veittu fyrst og fremst karlmönnum vinnu.

Nú getum við auðvitað velt fyrir okkur og gagnrýnt það að atvinnuval kvenna hér á landi mætti vera víðtækara og það eru ýmis hefðbundin störf karla sem konur geta unnið og öfugt. En það er ekki það sem skiptir máli heldur hitt að ýtt sé undir frumkvæði og nýsköpun.

[16:15]

Þá rifjast einnig upp fyrir mér, hæstv. forseti, að fyrir um það bil ári var haldin ráðstefna á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, norður á Akureyri í kjördæmi hæstv. landbrh. og umhvrh. Þar var ríkjandi sjónarmið að gefa þyrfti sérstakan gaum að atvinnumálum kvenna, ekki síst atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni. Mér er mjög minnisstætt að þarna var m.a. kynnt jafnréttisáætlun hollenska landbúnaðarráðuneytisins sem að sjálfsögðu koma bæði karlar og konur að eins og í ráðuneytum í flestum lýðræðisríkjum. Í þessu ráðuneyti þeirra Hollendinga hafði verið gerð sérstök áætlun sem fól bæði í sér að auka og bæta stöðu kvenna í landbúnaði, auka hlut þeirra í nefndum og stjórnum á vegum ráðuneytisins o.s.frv., hin merkasta áætlun. Við hljótum að spyrja: Hvað líður slíkum áætlunum þeirra ráðuneyta sem hafa með málefni landsbyggðarinnar að gera? Ég get vissulega tekið undir þau sjónarmið að fólk á að velja sjálft hvar það vill búa en einhæfni atvinnulífsins úti á landi, sérstaklega það sem snýr að konum og þær lágu tekjur sem konum bjóðast, er mjög mikið áhyggjuefni.

Við skulum hafa í huga að frá því að Reykjavík var gerð að kaupstað 1786 hefur verið stöðugur straumur kvenna til Reykjavíkur. Konur hafa yfirleitt verið og eru enn eftir því sem ég best veit í meiri hluta íbúa í Reykjavík í meira en 200 ár. Þetta á sér þær orsakir að konur voru að flýja einhæfni sveitanna og því miður margt það slæma sem þar gerðist, mikla vinnuhörku og eitt og annað sem aldrei var talað um. Þessi þróun hefur ágerst mjög á þessari öld og nú er staðan þannig að í mörgum sýslum eða sveitarfélögum eru karlar töluvert fleiri en konur. Konurnar leita í fjölbreyttari vinnu. Þetta þarf að skoða sérstaklega.

Ég vil líka, hæstv. forseti, koma að atvinnuleysinu og upplýsa hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að rétt á eftir verður dreift tillögu frá mér, þingmanni þeim sem hér stendur, um úttekt á orsökum atvinnuleysis kvenna og jafnframt að settar verði fram tillögur um það hvernig megi bæta þar úr. Ég tek sannarlega undir að þetta mál þarf að ræða alvarlega og vel. Það er athyglisvert að umræðan um atvinnuleysið hefur dofnað mjög og er það vegna þess að karlmenn eru nánast eingöngu í stjórn verkalýðshreyfingarinnar, þeir eru þar í miklum meiri hluta og mest áberandi. Hafa þeir virkilega ekki áhyggjur af atvinnuleysi kvenna? Ég varpa fram þeirri spurningu. Það mætti gjarnan heyrast meira frá þeim um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi kvenna vegna þess að það er verulegt áhyggjuefni eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á. Það er margfalt meira en hjá körlunum. Það er mjög áberandi í ákveðnum kjördæmum, kannski fyrst og fremst í Reykjavík. Hér hefur verið viðvarandi atvinnuleysi og á því þarf að taka. Það tengist atvinnumálum kvenna í heild en er í sjálfu sér annað mál en þessi sjóður. Ég vil ítreka að við eigum ekki að blanda saman nýsköpun og þróun annars vegar. Það geta verið konur sem eru í fullri vinnu og jafnvel með alls konar tilraunir og hugmyndir eða á fullu í rekstri fyrirtækja. Við þurfum að sjá miklu fleiri konur í stjórnum fyrirtækja, í forustu atvinnulífsins, sýna frumkvæði í ríkisstjórn til þess að vekja þar skilning á þessum málefnum, hæstv. forseti. Enn og aftur tek ég undir efni tillögunnar og legg jafnframt til að við sameinumst um að stórhækka þá upphæð sem veitt er til atvinnumála kvenna.