Atvinnusjóður kvenna

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 16:23:54 (596)

1997-10-16 16:23:54# 122. lþ. 11.6 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:23]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins vegna þeirra orða sem hv. þm. hafði um samgöngur vil ég taka fram að þegar ég er að lýsa þeim ráðstöfunum sem gripið var til á sínum tíma með þennan milljarð er ég ekki að gagnrýna að fjármagn sé veitt til vegamála. Ég held einmitt að því miður hafi mjög lengi verið viðloðandi lítill skilningur á því hve samgöngur skipta gríðarlega miklu máli.

Ég var að gagnrýna að þetta voru peningar sem varið var til atvinnusköpunar og verkefnin voru þannig valin að augljóst var að þau komu fyrst og fremst karlmönnum til góða og eins og ég nefndi hér getum við gagnrýnt að konur skuli ekki í ríkara mæli leita eftir fjölbreyttari vinnu. Það er ekki einfalt. Að vísu hafa stúlkur unnið í malbikun í Reykjavík og gert ýmislegt en það er oft erfitt að brjóta ísinn en þarna var svo áþreifanlegt dæmi um að algerlega var hugsað út frá sjónarhóli karla. Það var afar lítið hugsað um þann stóra hóp kvenna sem þá var atvinnulaus og því miður hygg ég að þetta sjónarmið sé ríkjandi enn þá.