Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 16:38:48 (598)

1997-10-16 16:38:48# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:38]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum þessi mál í skugga mjög alvarlegra upplýsinga um íbúaþróun. Þær fréttir sem bárust frá athugun Hagstofunnar um íbúaþróun á tímabilinu janúar til september á þessu ári eru þess eðlis að maður hrekkur óneitanlega við þó tölur sem bárust fyrr á árinu hafi vissulega verið vísbending um það sem koma skyldi. Ég held, virðulegi forseti, að tölurnar undirstriki að málið er mjög alvarlegs eðlis. Sjálfur tel ég að um sé að ræða eitt alvarlegasta þjóðfélagsvandamál sem við er að glíma hér á landi um þessar mundir. Það eru mjög alvarleg tíðindi þegar fólk úr einstökum kjördæmum kýs hundruðum saman að yfirgefa heimahagana umfram þá sem þangað flytja. Ég held að við stöndum frammi fyrir því einmitt um þessar mundir að staðan er að verða mjög alvarleg og líka í byggðarlögum sem fram að þessu hafa staðið sig mjög vel. Sú var tíðin að við gátum sagt sem svo: Ef þetta og þetta er lagað á einfaldan hátt svo sem atvinnustigið eða eitthvað í þeim dúr þá muni allt lagast í byggðamálunum. Ef sjávarútvegurinn er rekinn með hagnaði, sögðu menn fyrir örfáum árum, þá er allt í lagi úti á landi vegna þess að sjávarútvegurinn er aðalundirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar eins og þjóðarinnar í heild. Ef við skoðun hins vegar íbúaþróunina á einstökum landsvæðum og í einstökum byggðarlögum þá sjáum við að þetta er ekki nóg. Ég skal taka dæmi:

Einn mesti uppgangsstaður á Íslandi um þessar mundir er Eskifjörður. Þar hefur verið fjárfest fyrir milljarða kr. á undanförnum allra síðustu missirum og árum. Þar er staðan sú að á tímabilinu janúar til september fækkar fólkinu um 53 í byggðarlagi sem telur um það bil 1.200 manns. Egilsstaðir, svo ég taki annað dæmi, hefur verið uppgangsstaður hvað íbúafjölda áhrærir. Þar hefur verið fólksfjölgun meiri en almennt á landinu, sennilega mest á þéttbýlisstöðum á landinu á síðustu 20 árum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fækkar þar skyndilega fólki um 39 manns. Ef við tökum annan uppgangsstað í atvinnulífinu, sem ég veit að hv. þm. Hjálmar Jónsson, 1. flm. þessarar ágætu tillögu þekkir mjög vel til, Siglufjörð, þá fækkar þar um 39 á þessum sárafáu mánuðum. Annar staður í kjördæmi hans, sem stendur hjarta mínu býsna nærri, Sauðárkrókur, hefur líka verið mikill uppgangsstaður en þar hefur fólki fækkað frá janúar til september um 57 manns. Ef ég lít mér nær og skoða þróunina á Vestfjörðum þar sem við höfun nú átt mjög undir högg að sækja er staðan sú að í hinum sameinaða Ísafjarðarbæ fækkar um hvorki meira né minna en 142 og í Vesturbyggð um 54. Í Stykkishólmi, sem hefur staðið sig mjög vel, fækkar fólki um 45. Jafnvel í Borgarbyggð, sem hefur líka staðið sig vel hvað íbúaþróun hefur áhrært, fækkar fólki um 12 manns. Allt þetta segir okkur, virðulegi forseti, að þetta er mjög alvarleg staða. Það er mjög alvarleg staða þegar þannig háttar til. Því fer víðs fjarri að hér sé um að ræða eitthvert náttúrulögmál sem ekki sé hægt að ráða við. Það er þjóðfélagslega ákaflega óhagkvæmt og dýrt fyrir þjóðina að þessi íbúaþróun haldi áfram vegna þess að það eykur kostnað þjóðfélagsins í formi uppbyggingar mannvirkja á þessum slóðum sem kosta okkur hundruð milljóna, jafnvel milljarða á ári hverju, kostnaður sem við gætum verið laus við. Sú þróun að byggja upp eins og stundum hefur verið nefnt eina nýja Egilsstaði á hverju ári. Allir sjá í hendi sér að kostnaður við mannvirkjagerð, gatnagerð, holræsi, skóla og opinbera þjónustu er gríðarlega hár. Í flestum tilvikum er fólk að yfirgefa möguleikana til þessarar þjónustu sem er til staðar víða úti á landi.

Skoðanakönnun Byggðastofnunar, sem hér hefur verið vitnað til, er fyrst og fremst að leiða í ljós að þetta vandamál er miklu flóknara en við töldum áður. Mér finnst blasa við af þeim upplýsingum sem þegar hafa legið fyrir hjá Byggðastofnun að það sem á við á einum stað á kannski ekki endilega við á öðrum. Þau vandamál sem við er að glíma í Norðurl. v. eru að sumu leyti frábrugðin þeim vandamálum sem við er að glíma á Vestfjörðum. Á Vestfjörðum og Austfjörðum gera fleiri athugasemdir við ástand samgöngumála en á Norðurl. v. Á Norðurl. v. eru menn hins vegar miklu óánægðari með afkomu sína en fólk er á Vestfjörðum og sums staðar annars staðar. Ég held því, virðulegi forseti, að þessi tillaga sé einmitt mjög mikilvægt innlegg í umræðuna.

Nú fer fram á vegum Byggðastofnunar endurskoðun á svokallaðri stefnumótandi byggðaáætlun. Vonandi lítur hún dagsins ljós eftir áramótin. Ég held að þær hugmyndir sem verið er að varpa fram séu mjög þýðingarmiklar inn í þá efnislegu umræðu sem þarf að fara fram, bæði hér á þinginu þegar hin stefnumótandi byggðaáætlun lítur dagsins ljós og einnig við undirbúning hennar. Á vegum Byggðastofnunar hefur verið reynt að vinna að þessum málum með ýmsum hætti eins og fram kom í máli hv. 1. flm. Ég tel í því sambandi hvað mikilvægast að Byggðastofnun hefur verið að breyta áherslum sínum við aðstoð við atvinnuþróun og hefur gert samstarfssamninga við atvinnuþróunarfélög og sveitarstjórnasamtök í landshlutunum sem fela í sér stóreflingu atvinnuþróunar á landsbyggðinni. Þar er gert ráð fyrir því að á hverju þessara svæða séu til staðar þrír starfsmenn, almennur atvinnuráðgjafi, markaðsfulltrúi og ferðamálafulltrúi.

[16:45]

Hér er um að ræða aðila sem geta að mínu mati komið mjög að gagni við eflingu atvinnulífsins úti um landið. Við þekkjum það að litlu fyrirtækjunum, sem eru eins og allir vita vaxtarbroddurinn í atvinnusköpuninni og í því að fjölga atvinnutækifærum, er mjög um megn að stunda svona grundvallarathuganir eins og markaðsstarfsemi og ýmsa útreikninga sem nútímaatvinnurekstur kallar mjög á. Og ég held þess vegna að það sé þýðingarmikið, einmitt fyrir þennan þátt atvinnulífsins, að geta notið stuðnings frá atvinnuráðgjöf af því tagi sem hér um ræðir.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, vegna þess að tíminn flýgur frá mér, að þetta mál er mjög flókið og mjög margslungið og þær lausnir sem við viljum reyna að færa fram í þessum efnum eru þess vegna alls ekki jafnaugljósar og við töldum fyrir örfáum árum. Þess vegna ítreka ég það að ég tel að þær hugmyndir sem verið er að varpa fram í þessari tillögugrein séu mjög mikilvægt innlegg í þessa umræðu og ég held að við þurfum að taka umræðuna mjög alvarleg og ítarlega. Til þess gefast náttúrlega tækifæri á næstu vikum, m.a. þegar við ræðum í byrjun næsta mánaðar skýrslu hæstv. forsrh. um starfsemi Byggðastofnunar.