Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:24:14 (606)

1997-10-16 17:24:14# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., Flm. HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:24]

Flm. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagðist ekki átta sig á málinu og hvernig það væri lagt upp. Hv. þm. hefur ekki heyrt rétt um það sem hann fjallaði þarna. Ég talaði ekki um sértækar aðgerðir. Ég áréttaði að tillagan fjallaði um sjálfsagða jöfnun, að draga úr mismunun landsbyggð í óhag, en ekki sértækar aðgerðir. Sem sagt að jafna aðstöðu fólks í dreifbýli og þéttbýli og ég leiddi rök að því að landsbyggðin byggi við skertan hlut.

Það má líka segja um þessa tillögu að hún sé eins konar yfirlýsing, það er rétt hjá hv. þm. Kjörtímabilið er hálfnað. Það hefur verið unnið vel á fyrri hluta kjörtímabilsins og það er ekki öll nótt úti enn um verulegt átak í eflingu landsbyggðar. Því má segja tillöguna yfirlýsingu um að við viljum sjá það gerast á næstu tveimur árum með myndarlegum hætti.