Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:25:42 (607)

1997-10-16 17:25:42# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:25]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar ég sagði að ég áttaði mig ekki alveg á þessum tillöguflutningi þá átti ég við það að Alþingi hefur þegar samþykkt ályktun um stefnumótandi byggðaáætlun. Ég átti við að þessi tillaga gerir í raun og veru ekkert meira en að falla innan þeirrar tillögu. Þannig að það sem ég átti við var að tillaga sem þessi væri yfirlýsing frá þeim þingmönnum sem að henni stæðu um að ekki hefði tekist og lítið verið gert í því að framfylgja þeirri áætlun.

Enn fremur vil ég segja sem ég gerði ekki áðan að mér virðist sú nefnd sem á að vinna að þeim hugmyndum sem hér koma fram ekki ætlað að gera neitt umfram það sem Byggðastofnun er ætlað að gera í dag. Ég fæ ekki séð það. Þannig að mér virðist sem annars vegar hafi þessi tillaga svo sem ekkert efni umfram það sem kemur fram í ályktun Alþingis og hins vegar að þarna sé verið að ætla einhverri nefnd að vaða inn á verksvið Byggðastofnunar. Það er þetta sem ég átti við þegar ég sagði að ég áttaði mig ekki alveg á tilgangi eða formi þeirrar tillögu sem við erum að ræða.