Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:32:04 (611)

1997-10-16 17:32:04# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:32]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf líklega meira en tvær mínútur til þess að svara þessu andsvari því að hv. þm. byrjaði á því að túlka ræðu mína og sagði að ég hefði verið á miklum villigötum, sagði síðan að það þjónaði pólitískum hagsmunum að vera með útúrsnúninga og endaði svo á því að fjalla um Alþýðublaðið og skrif þess í fyrra um vegamál. Þannig að ég get væntanlega ekki tekið á öllum þeim atriðum sem hann nefndi hér.

En ég held nákvæmlega að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann var að tala um einhvers konar pólitískan sýndarleik. Þessi tillaga er vitaskuld ekkert annað en pólitískur sýndarleikur því hér eru stjórnarþingmenn að setja fram tillögu um að eitthvað skuli gera í byggðamálum. Það er ekkert annað.

Þess utan er efni þeirrar tillögu þannig að hún fellur innan ályktunar Alþingis um stefnumótun í byggðaáætlun og nú þegar er stofnun sem vinnur nákvæmlega að þeim málum. Ég get því ekki séð annað en að hér sé á ferðinni pólitísk sýndarmennska og er andskoti smeykur um að yfirlýsingar af þessu tagi hitti hv. þm. sjálfan fyrir.

Að lokum það að þingmenn jafnaðarmanna hafi fjallað um þetta með einhverjum öðrum hætti. Ég held að það séu allir um það sammála að forsenda þess að við ætlum að halda landinu í byggð sé að hér séu öflugar samgöngur. Undir það get ég tekið með hv. þm. og er ánægður með það að hann skuli vera óánægður með framlög til vega- og samgöngumála hjá þessari ríkisstjórn. En góðar samgöngur er grunnforsendur þess að við getum haldið uppi öflugu mannlífi úti á landi.

(Forseti (ÓE): Hafi forseti heyrt rétt, þá biður hann hv. þm. um að gæta hófs í orðavali.)