Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:34:00 (612)

1997-10-16 17:34:00# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:34]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það mjög vel að hv. 6. þm. Suðurl. hafi hrokkið í baklás þegar ég fór að tala um efnisleg atriði í hans eigin ræðu. Ég mundi líka hafa hrokkið í baklás ef ég hefði flutt eins ræðu og hv. þm. flutti hér áðan vegna þess að mér fannst hv. þm. ekki nálgast þetta mál af nægilega mikilli alvöru og kostgæfni. Ég var hér eingöngu að gagnrýna það að mér fannst hv. þm. frekar vera að reyna að gera tillögumennina tortryggilega heldur en að fjalla um tillöguna efnislega. Það er auðvitað eðlilegt að hv. þingmenn, hvort sem þeir eru úr stjórnarhópnum eða stjórnarandstöðuhópnum, leggi fram hugmyndir í þá miklu umræðu sem er núna að hefjast um byggðamálin í landinu. Hvað er óeðlilegt við það? Felst í því eitthvert vantraust á núverandi stjórnvöld að þingmenn stjórnarliðsins leggi fram hugmyndir í þinginu? Hvers konar álit er þetta á þingræðinu ef menn halda að þingmenn stjórnarliðsins eigi aldrei að leggja fram þingmál ef það snertir það sem verið er að vinna að á degi hverjum á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Ég skil ekki svona málflutning.