Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:39:59 (616)

1997-10-16 17:39:59# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., DH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:39]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu um eflingu atvinnu- og þjónustusvæðanna á landsbyggðinni. En þessi tillaga tengist reyndar mjög svo þeirri tillögu sem sú sem hér stendur flutti fyrr í dag um atvinnusjóð kvenna.

Það vill enginn sjá þá þróun sem er í dag, þessa fækkun á landsbyggðinni. Hvað er að gerast þegar jafnstórir bæir og t.d. Vestmannaeyjar eru að tapa 142 úr sínu byggðarlagi? Þetta er mjög alvarleg þróun.

Svo ég taki fleiri dæmi á Suðurlandi, Mýrdalshreppur tapar 11 manns, Skaftárhreppur 9, Hvolhreppur 15 en á móti er reyndar fjölgun á Selfossi um 29 þannig að eitthvað af þessu fólki stoppar reyndar í Suðurlandskjördæmi. Í Rangárvallahreppi verður aukning um 5 manns, Ölfushreppur tapar 46 manns, Hveragerði 19, Villingaholtshreppur 22. Aftur á móti eigum við þrjá gullhreppa sem lengi hefur verið talað um og það er Hrunamannahreppur, Gnúpverjahreppur og Biskupstungnahreppur, en samanlagt bæta þeir við sig 45 manns sem er reyndar mjög gleðilegt.

Eitt af því sem hefur verið rætt er jöfnun á tækifærum og jöfnun á aðstöðu. Sá sem býr t.d. í Vestmannaeyjum og ætla sér að fara í fermingarveislu til Reykjavíkur með fjölskyldu sína borgar miklu, miklu meira heldur en sá sem býr á Hellu þarf að greiða og getur tekið bílinn sinn og keyrt þangað. En Herjólfur er þjóðvegur Vestmanneyinga og því megum við ekki gleyma. Og þegar rætt er um kostnað landsmanna á hitun á húsum, þá er líka til saga um konu sem flutti utan af landi fyrir nokkrum árum. Hún fékk hitareikning sem hún borgaði hann alveg steinþegjandi og hljóðalaus. En hún var að borga fyrir heilan stigagang í blokk. Henni kom þetta ekkert á óvart því að þetta voru bara álíka reikningar og hún hafði verið að greiða heima hjá sér.

Það er eitt sem ég mundi gjarnan vilja að nefndin mundi taka til athugunar og það er hvernig hægt er að stuðla að ættliðaskiptingu í landbúnaði án þess að viðkomandi skuldsetji sig svo að hann geti aldrei rönd við reist. Það sem skiptir máli er nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi, það skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Og oft hefur nú verið hnýtt í Byggðastofnun en Byggðastofnun er að gera marga mjög góða hluti einmitt í samstarfi við sveitarfélögin í kjördæmunum. Á Suðurlandi hefur t.d. verið stofnað hlutafélagið Atgeir sem er að efla mjög atvinnulíf á Suðurlandi sem er mjög gott og út úr því eru að koma nokkur fyrirtæki.

En ímyndin skiptir miklu máli og hvernig er nú ímynd bænda t.d. í fjölmiðlum? Hún er alveg skelfileg. Það hefur verið sýnt eitthvert fólk sem er tötrum klætt, helst með lafandi tóbakið niður á bringu og fólk verður jafnvel undrandi þegar það kemur úr Reykjavík og hittir bara okkur venjulega sveitafólkið. Það rekur í rogastans að þetta skuli bara vera venjulegt fólk því að það sér ekkert annað í fjölmiðlunum en margan furðufuglinn. Þetta mættu nú fjölmiðlar athuga. Það virðast ekki vera neinar fréttir nema það séu neikvæðar fréttir og oft hefur verið reynt á landsbyggðinni að fá fjölmiðla til þess að taka upp einmitt það jákvæða sem er að gerast.

Það er mikið og gott menningarlíf á landsbyggðini. Við eigum góða skóla, við eigum frábæra tónlistarskóla, það er mikið félagslíf. Það er hvergi nokkurs staðar held ég bið eftir leikskólaplássi og menningarlíf er yfirleitt mjög gott þannig að það ætti ekki að fæla nokkurn frá að flytja út á land. Heilsugæslan á landsbyggðinni held ég að sé oft og tíðum mun betri heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Við þekkjum lækninn okkar og eigum oft mjög greiðan aðgang að heilsugæslunni.

Ég las um daginn grein eftir hjúkrunarfræðing sem var að segja raunasögu sína af að hitta heilsugæslulækninn sinn hér í Reykjavík. Þessa sögu þekkjum við ekki á landsbyggðinni. En aðalatriðið er að hafa trú á sínu byggðarlagi og trú á sjálfum sér. Það er það sem skiptir öllu máli.