Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:54:49 (618)

1997-10-16 17:54:49# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:54]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Í máli hv. þm. kom fram að þeir sem hafa talað í umræðunni séu núna að vakna upp við þessi tíðindi um fólksflutninga. Ég vil leyfa mér að rifja það upp með hv. þm. að þetta er alls ekki rétt vegna þess að ég veit ekki betur en þeir þingmenn hér sem hafa tekið þátt í umræðu um tiltekna tillögu hafi margoft rætt þessi byggðarmál og bent einmitt á þá þróun sem er í gangi. Ég vil leyfa mér að mótmæla málflutninginum en hins vegar vil ég einnig taka undir annað sem hv. þm. sagði og það er akkúrat það að byggðaþróunin í landinu er vandi allrar þjóðarinnar. Það er alveg hárrétt tilgreint hjá hv. þm. Þetta er ekki síður vandi höfuðborgarsvæðisins eins og ég kom inn á ræðu minni fyrr í dag þannig að ég tek undir þennan þátt í ræðu hv. þm. og auðvitað væri nauðsynlegt fyrir umræðuna að fá viðhorf þingmanna af þéttbýlissvæðum í Reykjavík og Reykjanesi til þess að fá breiðari umræðu.