Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 18:06:34 (622)

1997-10-16 18:06:34# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:06]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek fyllilega undir þetta. Ég var auðvitað ekki að verja fjölmiðlana. Ég hef enga ástæðu til þess. Það er alveg rétt líka sem hv. þm. sagði um menningarneyslu landsbyggðarfólksins. Ég hef einmitt oft tekið eftir þessu. Fólk sem kemur utan af landi nýtir tíma sinn mjög vel og tekur inn allt það sem er hér á þessu svæði og notar tækifærið vel.

Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. fyrir að gefa mér tækifæri til að koma aftur upp í ræðustól vil þess vegna nota það tækifæri til að tala um einn lið sem er nefndur hér í tillögugreininni. Ég set stórt spurningarmerki við a-liðinn. Ég sé ekki að það sé skynsamlegt að mæla með því að aksturskostnaður verði frádráttarbær frá skatti og það geti verið liður í þessu. Ég vil minna á að það er ýmiss konar annar kostnaður við það að sækja atvinnu, hvort sem það er um langan veg eða skamman. Og ef það á að fara að gera aksturskostnaðinn frádráttarbæran frá skatti þá vil ég bara minna á þann kostnað sem fólk hefur af barnagæslu svo það geti stundað atvinnu. Það mætti þá væntanlega gera slíkan kostnað frádráttarbæran frá skatti ef það á að fara þannig með aksturskostnaðinn.