Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 18:15:45 (624)

1997-10-16 18:15:45# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., Flm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:15]

Flm. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hjartanlega fyrir þessa umræðu og lýsi því yfir að ég er afar ánægður með hana. Smám saman hefur hún færst í það að hv. þingmenn dreifbýlis og þéttbýlis, landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, karla og konur, hafa rætt málin sem sitt sameiginlega mál sem það vissulega er og ég leyfði mér að geta um í framsögu fyrir þáltill.

Ég vil geta þess að árangur af byggðastefnu ríkisstjórnarinnar hefur að sumu leyti verið góður. Við megum ekki gleyma því sem áunnist hefur í atvinnu- og efnahagsmálum á síðustu árum og hefur komið öllum landsmönnum til góða. Hitt er annað mál að margt fleira þarf að gera. En fyrr á árum voru fréttir af landsbyggðinni enn þá neikvæðari en í dag. Þær fjölluðu oft og einatt um erfiðleika í atvinnulífinu, um það að grundvallaratvinnugreinarnar væru í hers höndum, væru í kaldakoli og að það þyrfti að grípa inn í annaðhvort með gengisfellingum eða með sértækum aðgerðum gegnum Byggðastofnun á þeim tíma. Þetta hefur mikið breyst sem betur fer. Það kemur öllum til góða að grunnurinn að efnahagslífinu skuli vera svo góður og traustur.

En svo komum við að þessu sem hér hefur oftsinnis komið fram í dag, að tölur undanfarinna ára um fólksflutning eru háskalega háar, alvarlegar tölur um búsetubreytingar, og við teljum okkur vita að það stefni í það nú að árið 1997 slái öll fyrri met um fólksflutninga til höfuðborgarsvæðisins af landsbyggðinni og því er svo mikilvægt að ræða málið einmitt núna. Þetta eru nýjar upplýsingar, þetta er stigmögnun á vandanum þannig að það er að sjálfsögðu þess vegna sem við tökum okkur til og ræðum málið á Alþingi.

Við þurfum að auka veg landsbyggðarinnar og þar er vissulega gott að búa eins og fram hefur komið. En fólki þar svíður það iðulega hvernig fjallað er um landsbyggðina eins og einnig hefur verið talað um hér í umræðunni. Þar er margt jákvætt að gerast sem ekki er fjallað um í fjölmiðlum.

Hv. þm. Drífa Hjartardóttir tók undir það að ættliðaskiptin þyrftu að ganga í landbúnaði öruggar og auðveldar fyrir sig en nú um stundir væri. Einn vandinn í ættliðaskiptunum í landbúnaði er sá að t.d. kúabændur vinna ekki frá átta til fimm, heldur vinna þeir alla daga ársins, 365 daga ársins, margir hverjir. Þetta er nokkuð sem yngri kynslóðin sættir sig illa við og það er afar skiljanlegt.

Í tillögunni eru talin upp fimm atriði sem má skoða. Þau eru vafalaust fleiri sem sérskipuð nefnd ríkisstjórnarinnar mundi skoða ef tillagan verður samþykkt sem ég vissulega vona. Það má vissulega líka deila um þessi efnisatriði og önnur mættu vera þar í staðinn. Þess vegna er sagt, með leyfi forseta, orðrétt hér í tillögunni: ,,Kannað verði m.a. hvernig:`` Og síðan koma þessi fimm atriði.

Herra forseti. Hér hefur einnig borið á góma að menntun barna í dreifbýlinu sé ekki styrkt nægilega, þ.e. að alvarlegur aðstöðumunur sé milli fjölskyldna í dreifbýli, þ.e. milli þeirra sem þurfa að senda unglinga langan veg til þess að mennta sig og svo hinna. Þar er um það að ræða að það þyrfti að hækka ferða- og dvalarstyrk, svonefndan dreifbýlisstyrk. Ég sá í frv. til fjárlaga mér til lítillar ánægju að tillaga menntmrn. gerir ekki ráð fyrir neinni verulegri hækkun á þessum lið. Mér þykir það afar miður. Ég vona að við berum gæfu til þess að ná hækkun á þennan lið þannig að fjölskyldur á landsbyggðinni muni um styrkinn og enginn unglingur þurfi að hika við að fara í framhaldsnám eða jafnvel að hverfa frá námi vegna fjárskorts. Ég veit hins vegar um nokkur slík dæmi og það er þyngra en tárum taki að horfa upp á slíkt.

Herra forseti. Það þarf að veita miklu meira fé til byggðamála á allra næstu árum en gert hefur verið. Samt sem áður yrði það aðeins brot af þeim kostnaði sem af alvarlegri búseturöskun hlytist. Það er einmitt þetta sem kom t.d. fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að búsetuþróunin sé jöfn og stöðug í landinu en stökkbreytingar verði ekki. Þetta skiptir alla landsmenn máli og mikilvægt að tefla ekki saman dreifbýli og þéttbýli sem andstæðum, heldur að menn átti sig á því að um sameiginlega hagsmuni allra Íslendinga er að ræða, hagsmuni Íslendinga til sjávar og sveita, dreifbýlis og þéttbýli, karla og kvenna.