Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 18:24:54 (626)

1997-10-16 18:24:54# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., Flm. HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:24]

Flm. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú er tónninn að verða miklu skapfelldari hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni en hann var fyrr í dag og ég fagna því. Alþýðuflokksmenn á þingi fluttu ágæta tillögu á síðasta ári um að styrkja byggð í landinu og hvernig það mætti gerast. Ýmsir hv. þm. stjórnarliðsins tóku þátt í þeirri umræðu og tóku undir ýmislegt sem þar var sagt. Menn áttuðu sig á því að þetta er sameiginlegt verkefni og málefni. Ég minnist þess hins vegar líka að í þessari umræðu voru sumir stjórnarsinna að undrast það að Alþfl. á þingi skyldi nú fara að flytja slíka tillögu eftir að hafa setið í ríkisstjórn svo og svo lengi og haft alla möguleika á því að koma þeim hlutum í framkvæmd sem þeir voru svo að óskapast yfir á síðasta ári.

Varðandi vegamálin sem hv. þm. nefndi og fjárveitingar til vegamála þá höfum við allir hv. þm. séð fjárlagafrv. en ekki vegáætlun. Ég veit þó að milli áranna 1997 og 1998 verður hækkun á fjárframlögum til vegaframkvæmda á Íslandi.