Lögmenn

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:19:47 (632)

1997-10-20 15:19:47# 122. lþ. 12.3 fundur 57. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:19]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. 6. þm. Suðurl. vék sjálfur að, þá drap hann á þessi atriði í umfjöllun um frv. þegar það var til 1. umr. á síðasta þingi. Ég man ekki betur en ég hafi þá gert skýra grein fyrir því að mjög algengt er í lögum að félög hafi ákveðið hlutverk og séu viðurkennd í lögum þó að löggjafinn ákveði ekki skylduaðild að slíkum félögum. Það getur verið til hægðarauka fyrir samskipti ríkisvaldsins og félaga í þjóðfélaginu á ýmsum sviðum. Þetta frv. er í fullu samræmi við aðra löggjöf af þessu tagi. Hv. þm. gerir sér vitaskuld grein fyrir því að jafnvel þó skylduaðild væri að félagi þá gæti sú staða komið upp að enginn gerðist félagi í viðkomandi félagi, ef enginn vildi vera í viðkomandi starfsgrein. Allar þessar fræðilegu spurningar eru til og útúrsnúningar af þessu tagi eru eiginlega ekki samboðnir jafnlærðum manni og hv. 6. þm. Suðurl. er, sem er lærður maður í lögum, og væri miklu ákjósanlegra og forvitnilegra að heyra fræðilega umfjöllun af hans hálfu um málið vegna yfirburðaþekkingar hans á þessu sviði en að stunda ár eftir ár sömu útúrsnúningana að þessu leyti.