Skaðabótalög

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:37:37 (640)

1997-10-20 15:37:37# 122. lþ. 12.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:37]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar allshn. fjallaði um frv. til breytinga á skaðabótalögunum á árinu 1996 varð samkomulag í nefndinni um að það þyrfti að fara fram heildarendurskoðun á þessum lögum. Stórir ágallar höfðu komið fram á skaðabótalöggjöfinni og mörg stór álitamál komu upp. Nefndin átti ekki auðvelt með að átta sig á ýmsum breytingum, sem þar voru lagðar fram, vegna þess að sjónarmið umsagnaraðila, sem komu á fund nefndarinnar, stönguðust mjög á. Þess vegna tel ég að samkomulag hafi verið um það í nefndinni að slík heildarendurskoðun þyrfti að fara fram eins og var lagt til á sínum tíma, vorið 1996 minnir mig. Hitt er annað mál að nokkuð var gagnrýnt í umræðunni og m.a. af þeirri sem hér stendur að frestur sem nefndin átti að fá til þess að endurskoða lögin væri nokkuð langur eða um eitt og hálft ár. Nú hefur nefndin skrifað bréf þar sem óskað er eftir enn frekari fresti eða einu ári. Hæstv. dómsmrh. er að leggja fyrir Alþingi frv. til laga um breytingu á skaðabótalögunum þar sem hann tekur undir óskir nefndarinnar um að fá þennan frest. Ég hefði talið að nefndin þyrfti að skoða hvort þessi frestur þyrfti að vera svo langur sem um er beðið og hvort ekki nægi eitthvað skemmri frestur svo við gætum að minnsta kosti á vorþingi afgreitt ný skaðabótalög. En yfir það förum við í allshn. þegar hún fær málið til umsagnar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif þessi frestur sem þarna er beðið um muni hafa á bótarétt þeirra sem þegar hafa orðið fyrir tjóni. Hvaða áhrif mun fresturinn hafa? Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar nefndin er að leggja mat á það að við fáum algjörlega upplýst hvort þetta muni hafa einhver áhrif á bótarétt þeirra sem hafa þegar orðið fyrir tjóni. Þegar við fjöllum um ný skaðabótalög með einhverjum breytingum hvað á þá að gera með slys og tjón og bótarétt þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni fyrir gildistöku laganna? Tekur það þá mið af þeim lögum sem eru í gildi í dag? Ég hefði viljað fá fram hjá ráðherranum hvaða augum hann lítur á þetta. Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort tengsl séu á milli breytinga á skaðabótalögunum sem nú er verið að vinna að og beðið er um frestun á í eitt ár að leggja fram og hvort tengsl séu á milli þeirra breytinga og breytinga á vátryggingarfjárhæðum umferðarlaga sem við fjölluðum um á síðasta þingi. Þar voru deildar meiningar milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga þar sem hæstv. ráðherra lagði til í umferðarlögunum að vátryggingarfjárhæðir hækkuðu verulega til samræmis við skaðabótalögin en með skaðabótalögunum voru hæstu bætur til einstaklinga vegna alvarlegra slysa hækkaðar verulega. Stjórnarliðar í allshn. lögðu til að þessi hækkun á fjárhæðunum yrði felld brott og það yrði vísað til endurskoðunar á umferðarlögunum sem átti síðan að leggja fyrir þingið á haustdögum.

Ég spyr í fyrsta lagi um hvort einhver tengsl séu milli þessarar frestunar sem beðið er um og breytinga á vátryggingarfjárhæðum umferðarlaga. Ef svo er ekki þá spyr ég hvenær við megum vænta þess að heildarendurskoðun, sem átti að liggja fyrir nú á haustdögum, verði lokið og hvenær frv. um breytingu á umferðarlögunum, sem tryggi vátryggingarfjárhæðir til samræmis við skaðabótalögin, verði lagt fram. Ég minni á að Vátryggingareftirlitið hefur ítrekað frá setningu skaðabótalaganna bent á nauðsyn þess að hækka vátryggingarfjárhæðir í umferðarlögum til samræmis við skaðabótalögin þannig að ég vil af þessu gefna tilefni spyrja um hvenær við megum vænta þess að það frv. verði lagt fram og hvort þessi frestun, ef Alþingi heimilar hana, hafi einhver áhrif þar á varðandi vátryggingarfjárhæðir umferðarlaganna. Og almennt, hvað þetta þýðir fyrir þá sem hafa orðið fyrir slysum eða tjóni? Hefur frestunin einhver áhrif á bótarétt þeirra?