Skaðabótalög

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:45:25 (642)

1997-10-20 15:45:25# 122. lþ. 12.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að það sé von á breytingum á umferðarlögunum sem tryggi þá breytingar á vátryggingarfjárhæðunum til samræmis við skaðabótalögin, en mér fannst hæstv. ráðherra nokkuð ónákvæmur um það hvenær frv. verði lagt fram. Meiri hluti allshn. lagði til að það yrði gert á haustdögum og ég spyr: Megum við vænta þess á næstu vikum? Er hugsanlegt að hægt verði að lögfesta það fyrir jólaleyfi? Ég bið hæstv. ráðherra að vera eilítið nákvæmari heldur en hann var um það hvenær við megum vænta þess að þetta frv. komi hér inn.

Varðandi svör ráðherrans um það frv. sem hér liggur fyrir og svar við spurningu minni um áhrif á bótarétt þeirra sem þegar hafa orðið fyrir tjóni, þá er náttúrlega ljóst að áhrifin eru nokkur miðað við það að draga þetta í eitt ár. Ef við erum að fjalla um betri bótarétt, sem við erum væntanlega að gera í þessari endurskoðun, þá hlýtur þetta að virka þannig að þeir sem verða fyrir tjóni áður en ný lög hafa verið sett muni kannski ekki njóta betri réttar sem verður með nýjum skaðabótalögum, því ég geng út frá að við séum að endurskoða þetta til að tryggja betri rétt bótaþega, þannig að allur dráttur á þessum breytingum er mjög slæmur. Ég tók eftir að ráðherrann sagði að hann hefði spurt nefndina hvort hún kæmist ekki af með styttri tíma en það var skoðun nefndarinnar að það væri ekki hægt. Við munum sjálfsagt fara ofan í þetta mál og kalla til formann nefndarinnar eða nefndarmenn til þess að við getum lagt sjálfstætt mat á það hvort það þurfi allan þennan tíma. Hann hefur verið mjög langur og ég minni enn og aftur á að það voru margir þingmenn sem töldu að nefndin fengi mjög rúman tíma sem var eitt og hálft ár og það er enn verið að biðja um frestun á þessum mikilvægu breytingum á skaðabótalögunum og heildarendurskoðun sem margir bíða eftir.