Skaðabótalög

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:48:45 (644)

1997-10-20 15:48:45# 122. lþ. 12.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:48]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er komið fram frv. sem veldur mér mjög miklum vonbrigðum. Eftir alla þá umræðu sem fram hefur farið um skaðabótalögin á liðnum þingum, þar sem velt var upp að manni fannst flestum flötum á þessum málum, þá á enn einu sinni að fresta málinu um ár.

Þetta frv. gengur út á það að frv. um heildarendurskoðun skaðabótalaga frestist um eitt ár eða alla vega að nefndin skili ekki af sér fyrr en að ári liðnu. Rökin hafa komið fram hér í umræðunni, bæði hjá ráðherra og einnig komu þau skýrt fram í greinargerð, nefnilega að það séu of fá tilfelli sem hafa verið gerð upp, of fá mál síðan skaðabótalögin frá árinu 1993 gengu í gildi.

Miðað við alla umræðuna í allshn. er ég satt best að segja mjög svartsýn á að það verði komin mjög mörg tilfelli í viðbót að ári liðnu. Þetta virðist vera mjög hægfara ferli að heildaruppgjör eigi sér stað. Oft líða upp undir tíu ár eða meira samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin fékk á umliðnum þingum og þess vegna velti ég því fyrir mér hversu mörg tilfelli séu líkleg til þess að vera uppgerð þó að það komi eins árs bið. Og ég velti því fyrir mér hvort kannski sé alveg eins gott að ganga til þessarar vinnu strax jafnvel þó að upplýsingarnar séu ekki betri en þær eru, eða hvort hæstv. dómsmrh. sé tilbúinn að bíða endalaust eða hvort hann muni jafnvel láta sér það nægja þó að tvö til þrjú mál verði uppgerð að ári liðnu. Þess vegna vil ég spyrja hvort hann hyggist leggja fram frv. um endurskoðun þessara laga jafnvel þó að það verði ekki nema tvö eða þrjú tilfelli sem koma í viðbót, því það má gera ráð fyrir að það verði ákveðinn hvati fyrir tryggingafélögin að gera þessi mál ekki upp ef það er hægt að fresta heildarendurskoðun endalaust af því að svo fá mál fá heildaruppgjör.

Ég mun mælast til þess innan allshn. að fulltrúar í endurskoðunarnefndinni verði fengnir til skrafs og ráðagerða við nefndina. Ég tel mjög alvarlegt að þessu máli hafi verið frestað og vona svo sannarlega að fresturinn verði þá ekki nema í mesta lagi eitt ár ef þetta verður samþykkt.