Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:56:56 (646)

1997-10-20 15:56:56# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:56]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Frv. þetta sem flutt er á þskj. 146 er flutt af þingmönnunum Jóni Baldvini Hannibalssyni, Össuri Skarphéðinssyni og Ágústi Einarssyni auk þess sem hér stendur.

Frv. um svipað efni var lagt fram á Alþingi sl. vor en svo skömmu fyrir þinglausnir að ekki náðist að ræða um málið. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. frá fyrstu gerð þessu eru í 1. mgr. 1. gr. Þar var áður lagt til að ráðherra fengi heimild til að bjóða út árlega veiðiheimild úr norsk-íslenska síldarstofninum en nú er það orðað svo að slíkt útboð skuli fara fram.

Megintilgangurinn með frv. er að leggja til að sú stefna verði mótuð varðandi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum að ákveðið verði í lögum að í stað veiða með ókeypis aðgangi tiltekinna veiðiskipa og með úthlutun ókeypis aflakvóta í framtíðinni verði veiðiheimildirnar seldar á frjálsum markaði til útgerðar þeirra skipa sem síldveiðar geta stundað. Í frv. eru jafnframt ákvæði um hvernig að slíku útboði á aflaheimildum skuli staðið.

Nokkrar umræður hafa orðið um líklegt markaðsverð á aflaheimildum vegna síldveiða, en litlar upplýsingar út af fyrir sig um þær að hafa vegna þess að það er lítil reynsla á sölu eða leigu slíkra veiðiheimilda og engin slík viðskipti með aflaheimildir í norsk-íslenska síldarstofninum hafa farið fram svo vitað sé. Ógerningur er því að spá fyrir um hver gætu orðið markaðsverðmæti aflaheimilda í því útboði sem hér er gerð tillaga um. Þó hafa menn reynt að geta sér þess til, m.a. í umfjöllun DV núna nýlega þar sem stuðst er við reynslu á útboði á íslensku vorgotssíldinni og er þá reiknað með að líklegt verð á markaði væri um það bil 9 kr. á kg sem þýddi það að ef tækist að selja allar þær aflaheimildir á norsk-íslensku síldinni sem úthlutað var á síðustu síldarvertíð, þá væru þarna líklega tekjur upp á 2 milljarða kr. fyrir sölu aflaheimildanna. Um það er hins vegar engu hægt að spá vegna þess að þarna er að miklu leyti rennt blint í sjóinn. Markaðurinn mun að sjálfsögðu ákveða það og það fer því eftir getu útgerðarfélags til að greiða fyrir þessar aflaheimildir þannig að ég held að það sé mjög varlegt að tala um líklegt verðmæti slíkra aflaheimilda í frjálsri sölu.

Í frv. er gert ráð fyrir að allar tekjur sem ríkið kynni að hafa af útboðinu renni til að greiða kostnað í þágu sjávarútvegsins sjálfs og sjómanna, þ.e. til haf- og fiskirannsókna og slysavarna sjómanna, þar á meðal til rannsókna sjóslysa. Fyrir það fé sem fengist með útboðinu ætti að vera unnt að efla mjög þá starfsemi sem hér um ræðir, sjávarútveginum og sjómönnum til velfarnaðar.

[16:00]

Eins og alkunna er hafa veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki verið stundaðar svo neinu nemi í yfir 30 ár en á allra síðustu árum hefur verið að verða breyting þar á. Síldarstofninn hefur verið í mikilli framför eftir langvarandi lægð og eru nú ýmis merki um að hann sé að ganga á gamlar slóðir. Með samningi um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum milli síldveiðiþjóða á norðanverðu Atlantshafi tryggðu Íslendingar sér veiðiréttindi úr stofninum á hafsvæðinu utan íslensku fiskveiðilögsögunnar og á síðustu vertíð öðluðust Íslendingar rétt til veiða á 230 þúsund tonnum á síld úr stofninum. Á síðasta ári hófust því á ný síldveiðar íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum, veiðar sem miklar vonir eru bundnar við og þá ekki síst ef stofninn hefur göngur sínar á fornar veiðislóðir innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

Vegna þess hve langur tími er liðinn frá því að síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum er ekki á neinni veiðireynslu að byggja á þeim flota sem hyggst stunda veiðarnar. Síldveiðiskipin sem veiðarnar stunduðu fyrir 30 árum eru flest horfin úr flotanum og útgerðir margra þeirra hættar störfum. Íslendingar standa því frammi fyrir aðstæðum sem eru alls ólíkar því sem átt hefur við um veiðar úr öðrum fiskstofnum á Íslandsmiðum og utan þeirra þar sem byggt var á margra ára veiðireynslu skipa sem voru í útgerð þegar þessar stjórnkerfisleiðir voru valdar.

Í vor óttuðust ýmsir að frjálsar veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum með þeim einu takmörkunum að þau skip ein fengju veiðiheimildir sem sérútbúin voru til síldveiða mundu leiða til þess að svo mikið kapp yrði um veiðarnar að stór hluti aflans færi í ódýrari vinnslu og manneldismarkmið yrðu lögð fyrir róða. Þannig fór þó ekki. Það reyndist ekki vera að svo illa færi þannig að til allrar hamingju hafa þessar veiðar skilað betri árangri, m.a. í verðmætum, en menn óttuðust.

Um þessi mál hefur mikið verið rætt, virðulegi forseti, og fjallað af ýmsum hv. þingmönnum og ráðherrum á undanförnum dögum. Þar hafa komið fram flest þau rök sem tínd hafa verið til fyrir sérstöðu norsk-íslenska síldarstofnsins og menn hafa látið í ljós þær skoðanir að vissulega kæmi til greina að gera þá tilraun sem hér er lögð til að gerð verði um sölu aflaheimilda norsk-íslenska síldarstofnsins. Sú skoðun hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum eins og hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, einnig frá tveimur hæstv. ráðherrum, bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. svo að ég vona að frv. af þessu tagi eigi nokkuð greiða leið í gegnum hv. Alþingi. Ég vil því í lokin, hæstv. forseti, einungis vísa til þeirra ummæla sem þessir hv. þingmenn og ráðherrar hafa látið falla um það að sú leið sem hér er lögð til að lögfest verði sé vissulega skoðunarverð og umræðuverð og ástæða til þess að huga mjög vandlega að því að velja þessa leið. Ég ítreka að ég vísa á röksemdir m.a. þeirra manna sem þannig hafa látið um mælt og treysti því að þeir veiti frv. þessu gott brautargengi í þinginu og í meðförum sjútvn.

Ég ætla því ekki að hafa fleiri orð um málið að svo stöddu en legg til að að lokinni umræðunni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.