Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 16:22:27 (648)

1997-10-20 16:22:27# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:22]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar löggjöfin um úthafsveiðarnar var undirbúin var ákvæði þess efnis að heimilt skyldi að bjóða upp veiðiheimildir um tíma inni í þeim texta. Síðan hvarf það út úr textanum og menn þekkja framhaldið. Lögin voru samþykkt án þess að slíkt ákvæði væri inni. Nú hefur komið í ljós að ákvæðið var tekið út að höfðu samkomulagi fulltrúa stjórnarflokkanna við framkvæmdastjóra LÍÚ. Þess vegna finnst mér rétt að við vitum, áður en lengra er haldið í umræðunni hvort búið er að gera frekara samkomulag við LÍÚ um málið. Það er auðvitað marklaust að ræða það hér ef það er staðreynd mála að stjórnarflokkarnir gera samkomulag við hagsmunaaðila úti í bæ um það fyrirkomulag hver niðurstaða á að vera hér í málum.

Mér fannst merkilegt, herra forseti, hversu mikið mark hæstv. ráðherra tekur á Rögnvaldi Hannessyni. Ég hef ekki orðið þess vör fyrr í umræðunni að hann samsamaði sig þeim fræðimanni eins og hann gerði áðan. Þess vegna væri líka fróðlegt að vita, bara svona fræðilega, herra forseti, hvort hæstv. ráðherrann er sammála öðru því sem Rögnvaldur Hannesson sagði um veiðileyfagjald í því viðtali sem hann vitnaði til.

Í öðru lagi væri líka fróðlegt, vegna þess að ég gat ekki heyrt betur en að ráðherrann tregaði það sérstaklega að hér væru ekki ríkisstyrkir í sjávarútvegi, hvaða áhrif hann telur að það hafi haft í gegnum tíðina eða undanfarna áratugi að sjávarútvegurinn hefur ekki verið ríkisstyrktur þó það sé umdeilanlegt á Íslandi og hvort hann er í raun og veru að leggja til að sjávarútvegur á Íslandi verði ríkisstyrktur umfram það sem nú er.