Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 16:26:51 (651)

1997-10-20 16:26:51# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:26]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru miklir útúrsnúningar að koma hér fram og vísa í starf úthafsveiðinefndarinnar með þeim hætti sem hv. þm. gerði. Öllum er ljóst að þar komu saman fulltrúar þingflokka og hagsmunasamtaka en það varð ekki heildarniðurstaða í nefndinni, það var ágreiningur.

Eins og menn muna sem fjölluðu um málið lagði formaðurinn fram tillögu á grundvelli mats um það hvaða sjónarmið ættu mest fylgi í nefndinni. En það var svo breytilegt frá einu ákvæði til annars. Á þeim grundvelli voru núgildandi lög samþykkt. Vitaskuld fjallar Alþingi síðan um þær tillögur og hefur gert það og gert þær að lögum. Alþingi, svo ég viti til, á ekki í neinum samningaviðræðum við aðila úti í bæ í því efni. Það er þá alveg nýtt.

Það er líka útúrsnúningur að draga inn í umræðuna önnur frv. en eru hér til umfjöllunar. Til umfjöllunar er tillaga þingmanna jafnaðarmanna um sérstakan auðlindaskatt með þeim tilteknu áhrifum sem ég veit að hv. þm. er mér sammála um. Það er vegna þess að við erum að ræða þetta dagskrármál að ég kem fram með þessa spurningu. Er þetta sérstök sending jafnaðarmanna inn í sjómannasamningana? En ég heyri að engin svör koma við því og þar við situr.