Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 17:11:49 (660)

1997-10-20 17:11:49# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[17:11]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. 4. þm. Vestf. hefði betur sparað sér að ræða um gagnfræðaskólafundarsköp og ræðumennsku áðan. Það hefur aldrei komið fram að ég og Morgunblaðið værum sammála um eitt eða neitt. Það veit hann ósköp vel. Ég talaði við hann fyrir 11 dögum, herra forseti. Þá benti ég honum á að það ætti að skoða þetta mjög gaumgæfilega. (SighB: Þetta hvað?) Það ætti að skoða uppboð á veiðileyfum á norsk-íslensku síldinni mjög gaumgæfilega.

Ég tók líka mjög skýrt fram að ég ætlaði ekki að leggja fram neinar tillögur um það. Ég sagði áðan í ræðustól, þannig að ég held að allir hafi skilið sem heyrðu, að ég teldi það vænlegt fyrir íslenska útgerðarmenn að eiga þess kost að kaupa á uppboði varanlegar aflaheimildir af norsk-íslenska síldarstofninum. Ég held að enginn sem hlustaði á mig hafi misskilið það nema þá viljandi. Ég er ekki að leggja þetta til, en þetta er eins og ég met það eftir að hafa hugsað um þetta síðustu 11 daga. Ég held að þetta sé vænlegasta leiðin. Ég sagði það mjög skýrt og vonandi þarf ég ekki að skýra það enn frekar.