Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 17:13:18 (661)

1997-10-20 17:13:18# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[17:13]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. leggur sem sé ekkert til en leggur til að það verði skoðað mjög vandlega og gaumgæfilega. Þá fer nú að vandast málið, því ef menn leggja ekkert til þá er mjög erfitt að skoða það. Eina tillagan sem liggur á borði hv. þingmanna er í því frv. sem hér er flutt og ég hlýt þá að skilja orð hv. þm. þannig að þá einu tillögu sem er til skoðunar beri að skoða mjög gaumgæfilega og væntanlega leiðir skoðunin til einhverrar niðurstöðu. Þá má vonandi vænta þess að hv. þm. sem situr í sjútvn. komi í því vinnuferli með einhverja tillögu um hvað hann vill láta gera, því að ég trúi því ekki að eina erindi hans inn í umræðuna, í fréttir og leiðara í Morgunblaðinu hafi verið það að hann vilji láta skoða málið en vill ekki segja hvað það er sem hann vill láta skoða og enn síður leggja það til.