Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 17:14:29 (662)

1997-10-20 17:14:29# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[17:14]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þeir sem hafa gaman af útúrsnúningi, þeir stunda það. Ég mun að sjálfsögðu ekki leggja til tillögur um veiðileyfi hér og nú vegna þess að eðlilegt er að ég, sem stjórnarþingmaður, hafi samráð um það við sjútvrh. og þá ríkisstjórn sem ég styð, það er mjög eðlilegt. Þannig vinnum við.

Ég held að hv. þm. hafi ekki skilið hvað ég var að segja. Ég var að segja það áðan að ég teldi vænlegast og það gæti komið til greina að við byðum upp þessar síldveiðar varanlega vegna þess að ég tryði því að það mundi spara þann kostnað sem ella félli niður á næstu fimm árum. Það væri mjög dýrt að öðlast þennan rétt með því að láta menn keppa á næstu fimm árum og við mundum spara þá peninga. Þess vegna var ég að leggja til og biðja menn að skoða þennan kost --- að bjóða upp síldina. Ég held að enginn þurfi að misskilja þetta. Þetta er bara umræða og þetta er tillaga og menn eiga að skoða þetta. Ég fjallaði um þetta fyrir 11 dögum, kom inn á þetta mál, benti á það og hv. 4. þm. Vestf. þarf ekkert að snúa út úr því frekar. Það er alveg óþarfi. Þetta er mjög skýrt og mjög greinilegt hvað ég er að tala um. Ég átti ekkert erindi inn í fréttir. Ég talaði hér og þeir sem segja hér fréttir, þeir segja frá því sem þeir vilja segja. Það hélt ég að allir vissu sem hér töluðu.