Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 17:16:22 (663)

1997-10-20 17:16:22# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[17:16]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. sem hér er til umræðu vegna þess að ég tel að það sé spor í þá átt að þjóðin njóti afrakstursins af nytjastofnunum í kringum landið og ég tel að það boði mikilvæga stefnubreytingu í fiskveiðistjórnun. Hér er verið að ræða um norsk-íslenska síldarstofninn sem hefur sérstöðu að því leyti að veiðireynsla er ekki fyrir hendi og um er að ræða deilistofn sem fer inn og út úr lögsögunni og því eiga lögin um úthafsveiðar við þennan stofn. Ég tel að árlegt uppboð á veiðiheimildum sé mjög góð leið til að stjórna þessum veiðum og vegna ummæla hæstv. sjútvrh. um að ekki hefði náðst sátt um það við setningu laga um úthafsveiðar að ráðherra gæti notað útboðsleiðina vil ég láta í ljós það álit mitt að ég tel að jafnvel án þeirrar lagabreytingar sem hér er lögð til geti sjútvrh. farið uppboðsleiðina við úthlutun á aflaheimildum, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. En í þeirri grein segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Skal hann við þá ákvörðun m.a. taka mið af fyrri veiðum skips. Einnig getur hann tekið mið af stærð skips, gerð þess eða búnaði og öðrum atriðum er máli skipta. Þá getur hann ráðstafað veiðiheimildum til skipa þeirra útgerða sem að undangenginni auglýsingu hafa lýst sig með skuldbindandi hætti reiðubúnar til þess að afsala af viðkomandi skipi mestum aflaheimildum, reiknað í þorskígildum, á tegundum sem heildarafli er takmarkaður af.``

Ég er með frv. hérna þannig að ég mun tékka þetta af rétt á eftir, en mig minnir að þessi grein hafi ekki breyst að þessu leyti og ég get ekki séð að það sé bannað í þessari grein að ráðherrann noti útboðsleiðina þó að um það hafi verið samið að taka það út úr textanum sem slíkt af því að þetta eru allt saman heimildir og ráðherrann á að ákveða þetta og síðan er bara sagt hvaða viðmið hann geti tekið mið af.

Hæstv. forseti. Ummæli hæstv. sjútvrh. áðan um laun sjómanna og fiskileigu til útlendinga var að mínu mati alveg hlægileg tilraun hans til að varpa ljósinu frá aðalatriðum þessa máls og reyna að fela að hjá honum sjálfum er ekki pólitískur vilji fyrir því að þjóðin, sem á nytjastofnana í hafinu í kringum landið, njóti afrakstursins. Afstaða hans í málinu áðan olli mér mjög miklum vonbrigðum vegna ummæla ýmissa aðila sem tengjast þessari ríkisstjórn, m.a. formanns Framsfl. og reyndar ummæla hans sjálfs í fjölmiðlum, um að til greina komi að nú verði notuð útboðsleiðin við að úthluta síldveiðiheimildum alla vega fyrir næsta ár.

Hvað varðar sjómenn er alveg ljóst að þeir hafa nú þegar tekið þátt í kvótaleigu og kvótakaupum og ég tel að það sé ekkert nýtt þó að Rögnvaldur Hannesson prófessor hafi lýst því yfir að þetta muni hafa áhrif á þeirra kjör. Sjómenn hafa sjálfir lýst því yfir að þeir séu nú þegar að greiða veiðileyfagjald og sumum þeirra a.m.k. finnst réttlátara að gjaldið sé þá greitt í ríkissjóð fremur en til útgerðarmanna.

Um frv. jafnaðarmanna sem hér er til umræðu, þá vil ég láta í ljós viss vonbrigði yfir því sem fram kemur í greinargerð og reyndar einnig í frumvarpstextanum, að við þessi útboð skuli arðinum eingöngu varið til haf- og fiskirannsókna og til slysavarna sjómanna og rannsókna á sjóslysum. Þetta eru vissulega allt mjög góð málefni sem ég styð af heilum hug, en ég spyr: Hvers vegna er ekki gengið lengra og lagt til að t.d. landsmönnum sé sent andvirði kvótans, eins og fram hefur komið í blaðagrein einmitt núna um helgina? Mér skilst að varlega áætlað sé það um það bil 300 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Hvers vegna má ekki nota andvirði fiskveiðikvótans t.d. til menntamála eða heilbrigðismála eða til þess að lækka skatta almennt? Ég tel að það mundi samræmast mun betur því markmiði að þjóðin í heild njóti afrakstursins af auðlindinni, ekki bara útgerðarmenn eða sjómenn.

Varðandi ræðu hv. formanns sjútvn. áðan, að yfirlýsingar ýmissa aðstandenda ríkisstjórnarinnar hafi farið gegn úthafsveiðilögunum, þá er ég ekki sammála því að það geri það þó að það sé hugsanlegt að stefnan sem hæstv. sjútvrh. lýsti áðan sé fyrst og fremst bundið af samningum við LÍÚ, þá er ég ekki sammála því að það stangist á við úthafsveiðilögin. Ég er þó sammála hv. formanni sjútvn. um að þetta mál verði að skoða mjög vel og ég mun væntanlega fá tækifæri til þess á vettvangi sjútvn.

Vegna orða sem féllu einnig áðan hjá hv. formanni sjútvn. um að sagan sýndi okkur að sumir sérhæfðu sig í fiskveiðum og aðrir færu að vinna við landbúnað og enn aðrir sem verkamenn o.s.frv., þá finnst mér sú umfjöllun ekki alveg réttlát vegna þess að nú erum við að fjalla annars vegar um stofn þar sem veiðireynsla á ekki við og hins vegar er mjög umdeilt hvernig kvótanum var úthlutað í upphafi í þeim lögum sem eru í gildi. Nú er svo komið að það eru mjög margar aðrar stéttir, ýmsir aðrir einstaklingar, sem alls ekki komast inn í sjómannastéttina þó þær fegnar vildu. Mér finnst það óréttlátt að vegna stjórvaldsaðgerða hafi þessari stétt verið lokað fyrir öðrum en fáum útvöldum.

Vegna orða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem talaði áðan, þá vil ég fagna því að í frv. er átt við árlegar veiðiheimildir en ekki varanlega aflahlutdeild á síld, eins og mér finnst hann vera að ræða um. Ég geri mjög mikinn greinarmun þar á og tel að sú aðferð sem hér er lögð til sé mun betri.

Ég vil að lokum róa hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, sem því miður er farinn úr salnum, með því að ég tel vissulega æskilegra að Íslendingar byðu í þennan kvóta heldur en útlendingar, en ef sú staða kæmi upp að veruleg fákeppni yrði vegna þess að sægreifarnir eru alltaf að verða færri og færri, þá gæti það hugsanlega þjónað hagsmunum þjóðarinnar að opna þetta fyrir fleirum en Íslendingum. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum ávallt að ráða yfir okkar fiskimiðum og við getum skilyrt slíka úthlutun við það t.d. að öllum afla sé landað hér á landi. Ég tel að þær aðstæður gætu myndast að vernd okkar á íslenskum útgerðarmönnum í þessu tilfelli gæti gengið það langt að það skaðaði hagsmuni þjóðarinnar. Ég vil meina að ummæli bæði hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um veiðar útlendinga séu stórlega ýktar og þær hugmyndir séu eingöngu settar fram vegna mótmæla gegn því að nokkrir sægreifar fái afhentar veiðiheimildir þjóðarinnar endurgjaldslaust. Það tryggir að mínu mati ekki best almannahag, heldur ríkidæmi fárra.