Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 17:29:58 (666)

1997-10-20 17:29:58# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[17:29]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls, ekki síst þeim sem talaði síðast, fyrir stuðninginn við frv. okkar jafnaðarmanna. Hins vegar verð ég að segja eins og er að ég skildi ekki það sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Vegna þess að hann talaði þvert gegn sjálfum sér miðað við hvernig frá hans málflutningi er m.a. sagt í dagblaðinu Degi þann 14. október sl. því þar er rætt við hæstv. sjútvrh. og fyrirsögnin á fréttinni sem er á forsíðu blaðsins er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Íhugar veiðigjald á síldina.`` Og hver er það sem blaðið segir að sé að íhuga veiðigjald á síldina? Það er hæstv. sjútvrh. Og veiðigjald á hvaða síld? Á norsk-íslenska síldarstofninn.

Í viðtali við hæstv. ráðherra kemur fram að hann hafi, á meðan lögin um fiskveiðar utan landhelgi voru í undirbúningi, verið þeirrar skoðunar, og tjáð formanni úthafsveiðinefndar, Geir H. Haarde, þá skoðun sína, að einn af kostunum sem kæmi til álita við úthlutun á nýjum stofnum væri útboð á veiðiheimildum. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hann hefði getað fallist á það þá, ef samstaða hefði orðið um þá lausn. En sú samstaða varð ekki. Hvers vegna ekki? Það kemur fram í Morgunblaðinu þann 15. október 1997 hvers vegna sú samstaða varð ekki. Vegna þess að þeir sem áttu að greiða, fulltrúar hagsmunaaðila, LÍÚ, neituðu. Þar er viðtal við Kristján Ragnarsson, formann Landssambands íslenskra útvegsmanna og hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Allt hefði þetta [hann er að ræða m.a. veiðileyfagjald á norsk-íslenska síldarstofninum] verið umrætt og hugsað frá hendi stjórnmálaflokkanna með Landssambandi íslenskra útvegsmanna hvernig þetta yrði útfært og það síðan sett í lög ágreiningslítið.`` Síðar í sömu frétt segir, með leyfi forseta: ,,Þeir [þ.e. stjórnarflokkarnir, segir Kristján Ragnarsson] virðast hafa gleymt um hvað stjórnarflokkarnir sömdu við hagsmunaaðila í fyrra um hvernig þessu skuli ráðstafað miðað við þau lög sem sett voru í fyrra.``

Það er ekki skrýtið þó að hæstv. ráðherra víki sér undan að svara spurningu sem hér var til hans beint um hvort endurnýjað samkomulag hafi verið gert við þessa aðila. Það kemur sem sé í ljós að hæstv. sjútvrh. var þeirrar skoðunar, áður en þessi lög voru sett á Alþingi í fyrra, að fyllilega kæmi til greina að selja veiðiheimildir úr norsk-íslenska síldarstofninum, en hæstv. ráðherra samdi við Landssamband íslenskra útvegsmanna um að gera það ekki. Þeir aðilar sem eiga að greiða fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum komast upp með það að semja við hæstv. ráðherra um að svo skuli ekki gert. Hæstv. ráðherra ætti kannski að hugleiða þetta gagnvart öðrum þeim sem lagt er til að greiði í sameiginlega sjóði. Að menn einfaldlega geri samkomulag við hagsmunaaðila um að það skuli ekki gert heldur skuli verðmæti sem hæstv. ráðherra og skoðanabræður hans, samstarfsmenn í ríkisstjórninni sem handhafar almannavalds, búa til í viðtölum við erlend ríki og samningum við erlend ríki, afhent nokkrum einstaklingum ókeypis. En hæstv. ráðherra sagði meira í viðtalinu við Dag þann 14. október. Hann segist vera alveg sömu skoðunar nú um veiðigjald á síldina og hann var áður en hann samdi við Landssamband íslenskra útvegsmanna. Þess vegna átti ég von á, þegar hæstv. ráðherra hefur ítrekað afstöðu sína um að veiðigjald skuli íhugað, að hann tæki öðruvísi á málum en hann gerði þegar hann kom í ræðustól áðan. Því það eina sem hann hafði að segja var að gera athugasemdir um að ekki væru ákvæði í frv. okkar um að heimila útlendum aðilum að kaupa slíkar veiðiheimildir til jafns við íslenska. Og ég spyr hann: Er hann að óska eftir því að það sé í frv.? Telur hann að það sé líklegra að hann muni samþykkja frv. ef slíkt ákvæði væri þar inni? Hvers vegna er hann að auglýsa eftir því? Saknar hann þess? Var það það sem hæstv. ráðherra var að íhuga áður en hann samdi við Landssamband íslenskra útvegsmanna eða var það eitthvað annað? Hvers konar útúrsnúningar eru þetta?

Hann spyr líka: Hvaða vit er í því að leggja skatt á sjávarútveginn? Hvaða skatt? Hver ákveður upphæð veiðileyfagjaldsins í þessu tilviki? Greiðendurnir sjálfir. Það er ekki ríkið eða Alþingi sem ákveður hvaða ,,skattur`` skuli tekinn heldur ræðst það á frjálsum markaði. Útgerðarmennirnir sjálfir ráða því á hvaða verði þeir treysta sér til að kaupa þennan kvóta. Og á hvaða verði treysta íslenskir útvegsmenn sér til að kaupa kvóta í viðskiptum á frjálsum markaði í dag af öðrum tegundum en norsk-íslensku síldinni? Nú síðast hafa þeir verið að kaupa þorskinn á 800 krónur kílóið. Þeir meta það svo sjálfir, það er ekkert skattlagningarvald sem metur það, engin ríkisstjórn, ekkert Alþingi, að útgerðin standi undir því að greiða 800 krónur og yfir 800 krónur fyrir hvert kíló af varanlegum þorskkvóta. Ekki er það skattlagningarvaldið sem metur það svo heldur útgerðarmennirnir sjálfir. Og varðandi sölu á veiðiheimildum úr norsk-íslensku síldinni eru það greiðendurnir sjálfir sem ákveða það hvað þeir treysta sér til að greiða á frjálsum markaði en ekki Alþingi eða ríkisvald.

Hæstv. ráðherra talar um kjarasamninga og laun sjómanna í þessu sambandi. Laun sjómanna eru ákveðin með hlutaskiptum. Það er ekki gerð nein tillaga í frv. okkar til að breyta því. En ég spyr hann á móti. Ef hann tengir laun sjómanna á þennan hátt við úthlutun aflaheimilda, hver er þá skoðun hans eða tillaga um að hækka megi aflahlutdeild sjómanna á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum ef útgerðirnar hans Þorsteins Pálssonar, hæstv. sjútvrh., fá aflaheimildirnar fyrir ekki neitt? Hvað telur hæstv. sjútvrh. að eigi að hækka hlutaskipti sjómanna á síldveiðum mikið ef nokkrir útgerðarmenn síldveiðiflotans fá aflaheimildirnar fyrir ekkert? Sú spurning er alveg jafngild og sú sem hann bar fram áðan. Og er hans hugmynd um að halda áfram að úthluta þessum aflaheimildum fyrir ekki neitt þá innlegg í kjarasamningaviðræður sjómanna og útvegsmanna í þá átt að þetta innlegg hans sé til þess gert að hækka hlutaskipti sjómanna í þessum veiðum? Nei, svo er ekki, enda er hann ekki að úthluta neinu til sjómanna. Það eru ekki sjómenn sem eignast aflahlutdeildir á Íslandsmiðum, ekki heldur í norsk-íslensku síldinni. Og það eru ekki íslenskir sjómenn sem hafa hagnast á því þegar handhafar þessara réttinda eru að leigja eða selja þau frá sér og ekki heldur landverkafólk og ekki heldur ríkissjóður, heldur þeir sjálfir.

Það er mikið rætt um að ekki sé hægt að taka afstöðu með veiðileyfagjaldi af því að ekki sé búið að skilgreina hvað það er. En þeir sem það segja treysta sér mætavel til að taka afstöðu gegn veiðileyfagjaldi þó að þeir telji að ekki sé búið að skilgreina hvað það er. Þeir sjá engin vandkvæði á því. Það er bent á að ekki sé búið að skilgreina veiðileyfagjald vegna þess að við jafnaðarmenn höfum bent á margar leiðir til útfærslu þess gjalds. Ef við lítum á annan tekjustofn sem orðinn er, t.d. tekjuskattinn, er þá ekki búið að skilgreina hvað tekjuskattur er af því menn hafa bent á ýmsar leiðir um það hvernig megi framkvæma hann? Auðvitað er álagning veiðileyfagjalda eins og álagning annarra gjalda, að um margar leiðir er að velja. En það vantar ekki að menn viti og hafi skilgreint hvað auðlindagjald eða veiðileyfagjald er. Það er margbúið að gera það og allir vita hvað það þýðir. En menn hafa auðvitað misjafnar skoðanir á því alveg eins og með aðra gjaldtöku, því þetta er gjaldtaka, hvernig eigi að framkvæma hana. Hvort það eigi t.d. að gera það með útboðsaðferðum eins og hæstv. sjútvrh. hefur verið að tala um, hvort það eigi að gera það með föstu verði, hvort það eigi að gera það eingöngu á viðbótaraflaheimildum, hvort það eigi að gera það eingöngu varðandi norsk-íslenska síldarstofninn, eins og hæstv. ráðherra hefur sjálfur sagt að eigi að gera, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hæstv. utanrrh. o.s.frv. Það að menn greini á um aðferðina til að leggja þetta gjald á þýðir ekki það sama og að menn viti ekki um hvað menn eru að tala. Og það er fráleitt að halda því fram að ekki sé hægt að taka afstöðu með veiðileyfagjaldi vegna þess að menn hafi ekki skilgreint hvað veiðileyfagjald er, en treysta sér á sömu stundu og sama stað til að taka afstöðu gegn veiðileyfagjaldi þó þeir telji sig sjálfa ekki vita hvað það er.

Ég átti von á því, virðulegi forseti, að hér yrðu fleiri viðstaddir sem hafa tjáð sig upp á síðkastið. Einn þeirra er t.d. hæstv. utanrrh. Hann hefur tvívegis í samtali við Morgunblaðið tjáð sig um þessi mál. Hann segir á einum stað í viðtali við Morgunblaðið að gjaldtaka komi til greina. Það er haft eftir honum í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 sl. sunnudagskvöld að gjaldtaka af veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum kæmi að mörgu leyti til greina. Það er haft eftir honum úr þættinum að hann líti allt öðruvísi á veiðiheimildir úr norsk-íslenska síldarstofninum en aðrar. Síldin hefði horfið héðan fyrir nokkrum áratugum og Halldór teldi að þau skip sem hefðu verið að stunda síldveiðar að undanförnu hefðu ekki unnið sér neinn rétt, það hefði verið tekið fram hvað eftir annað. Hann segir einnig í beinu viðtali við Morgunblaðið að ýmsir kostir komi til greina varðandi úthlutun veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum. Þar á meðal er hann spurður álits á hugmynd Einars Odds Kristjánssonar hv. alþm. Og hver er hugmynd Einars Odds Kristjánssonar? Jú, að gera megi tilraun til að leggja auðlindagjald á síldveiðiheimildir. Það er von að hæstv. forsrh. hafi orðið mæta hér í salinn þegar hann vissi að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson væri á mælendaskrá, til þess að standa vörð um það að hann segði nú ekki of mikið, enda dró hv. þm. í land frá því sem hann hafði áður sagt. En ég vona að hann hafi ekki skipt um skoðun. Hæstv. utanrrh. segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það má vel hugsa sér að ríkisvaldið leigi hluta [veiðiheimilda] á sama markaði og útvegsmenn versla á. Í þessu sambandi má nefna hluta af þeim aflaheimildum sem koma til úthlutunar úr norsk-íslenska síldarstofninum og ekki er sérstök veiðireynsla fyrir, ...``

Það eru því ekki bara jafnaðarmenn sem hafa lýst skoðunum sínum í þessa veru. Hæstv. sjútvrh. hefur gert það. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur gert það. Formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur gert það og hæstv. utanrrh. hefur gert það. Er þá nokkuð skrýtið þó að málflutningur tveggja þessara aðila sem hafa lýst þessum skoðunum hér hafi komið nokkuð á óvart? Því hann er allt annar heldur en sá sem þeir hafa viðhaft nú um nokkurt skeið. Þess vegna ítreka ég spurningu sem kom fram áðan: Er hæstv. sjútvrh. búinn að semja aftur við Landssamband íslenska útvegsmanna um að þeir skuli fá aðgang að þessari auðlind fyrir ekki neitt? Finnst hæstv. ráðherra það ekkert athugavert að verðmæti sem ríkisstjórn, handhafi almannavalds, skapar með samningum við önnur ríki, skuli tekin og gefin nokkrum Íslendingum fyrir ekki neitt? Hann er ekki að gefa sjómönnum neitt, ekki verkafólki, ekki dreifbýlinu. Hann er að gefa þau nokkrum einstaklingum fyrir ekkert.

Herra forseti. Það skiptir ekki meginmáli hverjir standa að flutningi þingmáls. Það skiptir ekki heldur meginmáli hvernig mál koma fyrst inn á Alþingi Íslendinga. Ég trúi því, virðulegi forseti, að alvara sé á bak við þau ummæli stjórnarliða sem ég hef vitnað í, ummæli hæstv. sjútvrh. um að sjálfsagt sé að íhuga og skoða þetta mál, ummæli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um að sjálfsagt sé að framkvæma þetta svona, ummæli hæstv. utanrrh. um að hann sé fylgjandi því að selja veiðiheimildir. Ég trúi því að menn meini þetta svona. Og ég trúi því að menn láti af þessu verða á yfirstandandi þingi og séu samkvæmir sjálfum sér.