Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 18:21:20 (677)

1997-10-20 18:21:20# 122. lþ. 12.7 fundur 155. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[18:21]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu hefur þann tilgang, eins og segir í greinargerð, að afnema að mestu leyti heimildir til framsals veiðiheimilda samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Þetta frv. er að mínu mati mjög athyglisvert vegna þess að það snertir þrjú grundvallaratriði. Í fyrsta lagi snertir það hversu hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfið er og í öðru lagi snertir það þá áhættu sem fylgir því fyrir heilu byggðarlögin að kvótinn er framseljanlegur. Í þriðja lagi má segja að það snerti mjög miklar og harðar deilur um brask með kvótann og heimildir til að leigja kvóta.

Þessi atriði eru mjög illsættanleg, þ.e. að hafa mjög hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi og að koma í veg fyrir þann hrylling sem ýmis byggðarlög hafa upplifað á undanförnum árum, þ.e. að kvótinn er seldur úr plássinu. Í Noregi tíðkast það, eins og Alþingi veit, að kvóti er framseljanlegur eingöngu innan byggðarlaga. Þar með næst það markmið að hluta að kerfið er hagkvæmt og einnig að síður er hætta á að heilu byggðarlögin missi lífsviðurværi sitt.

Ég hef gert nokkuð af því að ræða um okkar fiskveiðistjórnun við Norðmenn og þeir trúa því ekki að hér sé frjálst framsal lögbundið. Segja flestir sem ég hef talað við að það mundi aldrei fást samþykkt í Noregi.

Ég tel, herra forseti, að hérna sé um mjög mikilvægt mál að ræða í fiskveiðistjórnun okkar sem því miður hefur ekki verið pólitískur vilji fyrir að taka á af nokkurri alvöru og því fagna ég þessu frv. sem hérna liggur fyrir og vona að hv. sjútvn. taki málið fyrir af alvöru. Við kvennalistakonur höfum lagt til byggðakvóta til að koma í veg fyrir að heilu byggðarlögin missi lífsviðurværi sitt, eins og sagan sýnir að gerist. Það er til ein leið sem víða er notuð í heiminum, þ.e. að úthluta aflaheimildum til byggðarlaga sem síðan nýta þær í þágu fólks sem býr á viðkomandi svæði. Þau umdeildu kvótakaup sem urðu núna síðast, þ.e. á Suðurnesjum, sýna mjög vel að takmarkaðar aðgerðir eins og Suðurnesjaaðstoð eða Vestfjarðaaðstoð geta snúist upp í andhverfu sína og því verður að mínu mati að taka markvisst á þessu máli, helst án þess að kerfið missi sveigjanleika sinn og verði óhagkvæmara en nauðsynlegt er, sem ég tel vera helsta annmarka á því frv. sem hér er til umræðu.

Þetta frv. á að mínu mati að fá alvarlega skoðun og vonandi næst einhver leið til að þau umdeildu sjónarmið sem frv. er ætlað að greiða úr leysist, allar deilurnar í kringum kvótabraskið, en ekki síst að leið finnist til að tryggja það að fólk í sjávarplássum missi ekki lífsviðurværi sitt, svo og að fiskveiðistjórnunin geti verið hagkvæm. Það hlýtur að vera aðeins spurning um hvenær en ekki hvort, þ.e. hvenær stjórnvöld geri eitthvað í málinu. Ég tel að sú leið sem hér er lögð til sé að nokkru leyti óraunhæf, því miður, og þess vegna verði að fínpússa þetta frv. og fara að einhverju leyti aðrar leiðir, t.d. þær sem Norðmenn hafa farið til að ná þeim markmiðum sem ég hef rætt um.