Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 13:36:22 (680)

1997-10-21 13:36:22# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[13:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Sagt er að til að þrífast í starfi þurfi annað tveggja að vera til staðar, starfsánægja eða sæmileg laun. Ánægðastir séu þeir sem njóti hvors tveggja. Grunnskólakennurum eru ekki boðin þau kjör sem duga til að halda þeim lengur í starfi. Fram undir þetta hefur hluti þeirra haldist í starfi vegna starfsánægju og þeir hafa staðið í þeirri trú að störf þeirra væru þrátt fyrir allt metin þó verðlagningin benti til annars.

Auðveldara er að njóta þess sem starfið býður upp á og þola léleg laun meðan menn eru sammála um að kreppa sé í þjóðfélaginu en þegar landsfeðurnir keppast um að tilkynna þjóðinni að nú drjúpi smjör af hverju strái, hvernig er þá hægt að verja það að ráða sig til kennslu fyrir minna en 80 þúsund kr. á mánuði fyrir fullt starf?

Þó margir kennarar séu hugsjónafólk er þar komið sögu að til að stéttin geti endurheimt starfsánægju sína og sjálfsvirðingu þarf margt að koma til og eitt af því er veruleg hækkun launanna. Staða grunnskólans er grafalvarleg. Menn tala um uppsafnaðan vanda sem greinilega sé stærri en ætlað var og breyttar starfsaðstæður. Þar ber hæst þá umræðu sem orðið hefur um gæði grunnskólans á undanförnum missirum. Íslenskir skólar hafa mátt sæta samanburði sem þeir voru fyrir fram dæmdir til að tapa þar sem árangur þeirra hefur verið borinn saman við lönd þar sem skóladagur barnanna er lengri, skólaárið er lengra og laun kennaranna miklu hærri samanber nýjustu matsskýrslu OECD. Íslenskir kennarar hafa síðan fengið bágt fyrir að börnin skuli ekki standa jafnöldrum sínum í þessum löndum jafnfætis og helst framar. Þannig hefur skilningsleysi margra þeirra sem hafa fjallað um skólamál virkað sem hrein árás á kennarana og þeir hafa eðlilega spurt sjálfa sig hversu neðarlega sé hægt að fara með starfið í umræðunni meðan launin eru þannig að menn skammast sín fyrir að segja frá þeim.

Ég fullyrði, herra forseti, að það er ögurstund í sögu íslenska grunnskólans. Ekki einasta vofir yfir verkfall heldur eru fjölmargir kennarar búnir að segja upp stöðum sínum. Þeir eru búnir að fá nóg af þrýstingi og kröfum frá samfélagi sem er að átta sig á því að menntun er lykill að betri lífskjörum, kröfum sem mönnum er tæpast gert kleift að standa undir og ekki umbunað fyrir í launum. Margir góðar kennarar treysta sér ekki lengur til að vinna þau kraftaverk innan íslenska grunnskólans sem krafa er gerð um við ósanngjarnan samanburð við útlönd sem setja miklu meira fé til skólastarfs en hér er gert.

Launanefnd sveitarfélaga mun leggja fram nýja tillögu í dag. Samninganefndirnar munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að afstýra verkfalli en hvað stendur í þeirra valdi? Þó takist að afstýra verkfalli mun það ekki koma í veg fyrir að uppsagnir þeirra fjölmörgu sem hafa sagt starfi sínu lausu taki gildi um næstu áramót. Standa þeir fjármunir, sem sveitarfélögin fengu með grunnskólanum og samið var um meðan andi kreppunnar sveif yfir vötnum, undir þeim umbótum sem verða að koma til svo samanburður við önnur lönd verði sanngjarn og við hann verði lifað? Nei, staða grunnskólans er orðin slík að það stendur engan veginn í valdi sveitarfélaganna einna að bæta þar úr.

Framlag ríkisins dugar fyrir einhverjum launahækkunum núna en hvað með allt annað? Hæstv. menntmrh. hefur vísað umræðunni frá sér á þeirri forsendu að kjarasamningarnir séu hjá sveitarfélögunum. En kemur honum við hin alvarlega staða grunnskólans sem er fráleitt bara spurning um laun við núverandi aðstæður? Kemur honum við hvort vinnufriður verður tryggður í grunnskólanum eða hvort hann koðnar niður vegna óánægju og uppsagna kennara? Hver er ábyrgð ríkisins á því að íslenskir grunnskólanemar hljóti sambærilega menntun og jafnaldrar þeirra í samanburðarlöndunum og grunnskólinn íslenski standist samanburð við skóla OECD-ríkjanna eða telur ráðherra að með því að sveitarfélögin tóku við kjarasamningunum við kennara hafi menntmrh. losnað undan ábyrgð á menntun á grunnskólastigi?