Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 13:50:30 (684)

1997-10-21 13:50:30# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[13:50]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Kennaraverkfall er yfirvofandi þótt slíkt hafi ekki verið að heyra af vörum hæstv. menntmrh. Oft hefur verið samhugur og þungt í fólki þegar boðað er til verkfalls en sjaldan sem nú. Uppsagnir kennara sýna að þeir eru búnir að fá alveg nóg. Ég er sammála málshefjanda um að ríkisvaldið getur ekki horft aðgerðalaust upp á að skólastarf í landinu lamist. Það var yfirlýst markmið allra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar að leggja meira fé í menntamál. Því miður er ekki að sjá þess merki í fyrirliggjandi fjárlagafrv. þrátt fyrir að hér ríki góðæri samkvæmt hagtölum, góðæri sem rennur auðsjáanlega ekki til allra, þar á meðal kennara.

Herra forseti. Vegna orða hæstv. menntmrh. áðan um samning á milli sveitarfélaganna og ríkisins vil ég benda á að skv. 12. og 13. gr. þess samkomulag ber að endurskoða kostnaðar- og tekjuþörf sveitarfélaga vegna grunnskólans árið 2000 eða ef veruleg röskun verður á forsendum samkomulagsins. Nú er ljóst að kostnaður við grunnskólanema hefur hækkað úr 200 í 250 þúsund frá árinu 1995 og því vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvort það sé ekki að hans mati næg ástæða til að taka upp viðræður um endurskoðun nú þegar. Einnig vil ég spyrja hvort hann er sammála því sjónarmiði að nú þurfi að bæta kjör kennara umfram aðra, m.a. vegna þess að um uppsafnaðan vanda er að ræða. Það er skoðun mín að full ástæða sé til að endurskoða samninginn strax til að sveitarfélögin eigi möguleika á að taka á uppsöfnuðum vanda. Menntun þegnanna er ein besta fjárfesting sem möguleg er og þar verður grunnurinn að vera styrkur. Til að viðunandi samningar náist um breytingar á kennsluskyldu og vinnutíma verður að vera tryggt að kennarar fái laun í takt við menntun þeirra, ábyrgð og mikilvægi starfsins.