Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 13:57:04 (687)

1997-10-21 13:57:04# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[13:57]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar ríkið kom grunnskólunum með ýtni yfir á sveitarfélögin á síðasta ári ætlaði fagurgalanum aldrei að linna. Ríkið ætlaði að hagnast á því að losna við þennan útgjaldalið. Sveitarfélögin ætluðu að hagnast líka og lögðu mikla áherslu á að fjármunir þeir er ætlaðir voru til skólanna væru ekki eyrnamerktir til þess að tryggja sveigjanleika fjármagnsins eins og það var orðað. Það gleymdist í hrifningarvímunni að ríkið var búið að ákveða að allir grunnskólar skyldu einsetnir um aldamót og að ýmis sveitarfélög mundu þurfa að leggja út mikla fjármuni til að uppfylla það skilyrði. Það sem kannski var enn verra er að um leið og skólar urðu einsetnir í ríkari mæli kom æ betur í ljós hversu kennaralaunin voru bágborin. Ekki gat nokkur maður lifað af kennaralaunum án yfirvinnu og samt varð það hlutskipti æ fleiri kennara að fá aðeins strípaða stöðu eða jafnvel hlutastöðu vegna þess að þeir voru bara ráðnir til að kenna einum bekk. Það hafði nefnilega til æði margra ára verið hlutskipti kennara eins og fleiri Íslendinga að draga fram lífið með óhóflegri vinnu. Vonir voru bundnar við að sveitarfélögin mundu bæta kjör kennara en þegar samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga kom að samningaborðinu var ljóst að sú nefnd sem nú situr ein með alla þræði í hendi sér hafði önnur áform. Hún ætlaði í einu höggi að auka kennsluálag, auka viðverutíma í skóla, auka aðra vinnu kennara en kennslu, stytta undirbúningstíma og taka af kennurum réttindi sem þeir höfðu unnið sér inn með áratuga starfi en umfram allt þó að gera kennsluna sýnilega, hvað sem það er.

Ábyrgð ríkisstjórnarinnar á þessu máli er vissulega mikil, herra forseti. Það er deginum ljósara að sá heimanmundur sem fylgdi grunnskólanum yfir til sveitarfélaganna þarfnast endurskoðunar við.