Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 13:59:20 (688)

1997-10-21 13:59:20# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[13:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Talandi um heimanmundinn þá fá sveitarfélögin tekjur vegna yfirfærslu grunnskólans með tvennum hætti. Annars vegar með hækkun útsvarstekna og hins vegar með framlögum úr jöfnunarsjóði. Hámarksútsvar sveitarfélaga hefur af þessum sökum vegna yfirfærslunnar verið hækkað úr 9,20% í 11,99% vegna yfirstandandi árs og hækkar enn frekar frá og með 1. jan. 1998, en þá verður hámarksútsvarið 12,04%. Hækkunin tekur einnig til þess að sveitarfélögin geti fullnustað lífeyrissjóðsskuldbindingar grunnskólakennara. Jöfnunarsjóður fær hluta af hækkun útsvarsprósentunnar og renna þær tekjur aftur til sveitarfélaga í formi framlaga vegna reksturs grunnskólans.

Kostnaðarnefnd sú sem vann að athugun á kostnaði sveitarfélaga vegna verkefnisins byggði mat sitt á eftirfarandi þáttum:

1. Fjárveitingum í fjárlögum 1996 til grunnskólaverkefna sem færast til sveitarfélaga.

2. Þeim kostnaðarauka sem fólst í kjarasamningum sem gerðir voru á árinu 1995.

3. Ákvæðum grunnskólalaga þar sem gengið var út frá að það kæmi að fullu til framkvæmda á næstu fimm árum eftir yfirtökuna, fjölgun kennslustunda og aukinn rekstrarskostnaður vegna einsetningarinnar. Einnig áætlaði nefndin að hækkun útsvarstekna gæti staðið undir eðlilegri launahækkun kennara og það er rétt að menn hafi það í huga. Það er með í pakkanum. Það er lenging skóladagsins, það var innsetningin, það var ámóta launahækkun til kennara og annarra stétta í þjóðfélaginu og sveitarfélögin eiga að hafa svigrúm til þess að reka grunnskólann með þessum hætti.