Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:04:01 (690)

1997-10-21 14:04:01# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Málshefjandi Svanfríður Jónasdóttir setur fingur á auman blett með þessari umræðu. Alþingismenn hljóta og eiga að vera afar áhyggjufullir vegna þróunar málefna grunnskólans. Það er furðulegt að verða vitni að því hvernig stjórnarliðar og ráðherrar bregðast við.

Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði: Þjóðin setur ekki menntamál í forgang. Síðan hvenær hefur þjóðin verið spurð um forgang? Hvenær hefur þjóðin verið spurð um forgang, t.d. í fjárlögum ríkisins? Hins vegar er vegur til þess inni í framtíðinni að hún geti krafið sveitarstjórnir um forgang vegna nálægðar við þær þegar þar að kemur.

Alþingi hefur með lögum flutt grunnskólann til sveitarfélaganna og þessi viðkvæmi og dýrmæti málaflokkur var vigtaður og settur á hann verðmiði. Svo kemur í ljós að kostnaðarverðið stenst ekki, það er of lágt og þá á bara að slá hausnum við stein. Þetta er staðreynd. Mörg sveitarfélög eru núna mjög áhyggjufull út af því verkefni sem bíður þeirra. Eigum við þá, Alþingi og ríkisstjórn, að þvo hendur og segja: Þetta er ekki okkar mál. Mér heyrist það á viðbrögðunum í dag.

Alþingi hefur ákveðið að málaflokkur fatlaðra flytji líka til sveitarfélaganna. Þar hefur verið dregið úr framlögum og hægt á þróun í málaflokknum. Hvernig verður sá hópur veginn þegar þar að kemur og flutningur á að eiga sér stað?

Ég er mjög áhyggjufull út af því hvernig þessi mál hafa þróast. Ég er sannfærð um að báðir málaflokkar eru best komnir hjá sveitarfélögunum svo fremi þau hafi tekjur til að sinna honum. Miklar breytingar í þjóðfélaginu kalla á nýja sýn og nýjar áherslur í skólamálum en til þess þarf fjármagn og til þess þarf að setja þessi mál í öndvegi og það ber okkur að gera og hafa áhrif á. Við getum ekki fríað okkur, hæstv. ráðherra.