Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:06:25 (691)

1997-10-21 14:06:25# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er því miður að verða æ ljósara þessi missirin að við búum ekki í fjölskylduvænu samfélagi. Angi af því er sú staðreynd að aðbúnaður að skólum og laun kennara eru hér neðan við allar hellur. Það er upplausnarástand í skólakerfinu af þeim sökum. Laun kennara eru síðan aftur hluti af vítahring lágra launa og langs vinudags sem við erum því miður föst í.

Það er ljóst að þegar er orðinn mikill skaði í deilunni. Spurningin er ekki um hvort heldur hve mikill hann verður, hversu mikill flótti verður úr stéttinni. Það er ekki hægt, herra forseti, að afgreiða málin með þeim hætti sem stjórnarliðar reyna hér. Það er það samhengi milli yfirfærslunnar til sveitarfélaganna og þeirra væntinga sem biðu um úrbætur í skólamálum og um launahækkanir kennara sem við erum að fá í andlitið. Það er ekki hægt að slíta þetta úr samhengi með þeim hætti eða forða sér á flótta undan málinu eins og menntmrh. og stjórnarliðar reyna hér.

Sveitarfélögin fengu nefnilega ekki bara heimanmund og þau fengu ekki bara fjármuni með grunnskólanum. Þau fengu gífurlega uppsafnaða þörf fyrir úrbætur í skólamálum og þau fengu miklar væntingar um launahækkanir kennara. Það er að koma í ljós að þær væntingar voru langtum meiri en möguleikar sveitarfélaganna eru til að bregðast við þeim. Þess vegna er óumflýjanlegt, herra forseti, að í kjölfar þess að deilan leysist vonandi taki sveitarfélögin og ríkisvaldið upp viðræður á nýjan leik um stöðuna í þessum málaflokki, um grunnskólann, um málefni hans almennt, um möguleika sveitarfélaganna, þar með talið og ekki síst hinna minni og fjárhagslega veikari til þess að standa þannig að þessum málaflokki eins og við viljum sjá að gert verði í framtíðinni. Það er ekkert að gera með menntmrh. sem hefur ekki annað til málanna að færa en var flutt af hans hálfu áðan, hæstv. menntmrh. Það verður þá einfaldlega að skipta um ef sveitarfélögin eiga að skilja þetta þannig að þau eigi hvergi höfði sínu að halla varðandi faglega yfirstjórn þessa málaflokks.