Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:08:45 (692)

1997-10-21 14:08:45# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:08]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er ekki sanngjarnt að halda því fram að við stjórnarandstæðingar viljum vísa kjaradeilunni frá sveitarfélögunum. Það er nefnilega rétt sem kom fram í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Það er ekki bara verkfallið sem ber að óttast heldur öllu frekar uppsagnirnar. Þeir sem þekkja til og sjá og vita hvaða kennarahópur það er sem er búinn að segja upp, sem er að íhuga uppsagnir, sem treystir sér ekki til að hverfa aftur til starfa, þeir vita hversu alvarlegt þetta mál er, þeir vita hve alvarleg staða grunnskólans á Íslandi er.

Staða kennara hefur breyst og þar með staða grunnskólans. Það er óyggjandi að það þarf mikið viðbótarfjármagn inn í þennan málaflokk til þess að íslenski grunnskólinn sé samkeppnisfær í samanburði við útlönd, til þess að hann sé fær um að mennta börnin okkar þannig að þau séu samkeppnisfær við jafnaldra sína erlendis.

Herra forseti. Ríkisvaldinu kemur þetta við. Öllum stjórnmálamönnum kemur þetta við. Þjóðinni allri kemur þetta við. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir rakti áðan hvað stendur í því samkomulagi sem ríkið og sveitarfélögin gerðu. Þar stendur að ef forsendur breytast eigi að taka samninginn upp. Bara þetta ákvæði, herra forseti, segir mér að ríkinu kemur þetta við. Ella hefði ekkert slíkt ákvæði verið sett inn. Öllum kemur þetta mál við, herra forseti, nema e.t.v. hæstv. menntmrh. nema hann segi okkur eitthvað annað hér á eftir.