Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:10:46 (693)

1997-10-21 14:10:46# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:10]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég var spurður í upphafi umræðunnar hvaða hlutverk menntmrn. hefði gagnvart grunnskólanum. Ég rakti það samkvæmt lögum og reglum sem gilda um þennan málaflokk og að sjálfsögðu ber menntmrn. að starfa í samræmi við landslög og þær reglur sem settar eru á grundvelli þeirra. Þar kemur fram að ráðuneytið á ekki að skipta sér af kjaramálum kennara. Það á ekki að skipta sér af kjaradeilu sveitarfélaga og kennara og ég ber það mikla virðingu fyrir samningum og verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga að ég tel alfarið út í bláinn hjá hv. þingmönnum að krefjast þess að menntmrh. hlutist til um þessa kjaradeilu.

Hins vegar er mikið og gott samráð á milli menntmrn., Sambands ísl. sveitarfélaga og kennarasamtakanna um þau mál sem lúta að grunnskólanum. Reglulega er efnt til funda á milli þessara aðila, um einstök málefni sem þarf að ræða og það er náið samráð um alla þessa þætti á milli ráðuneytisins og fagaðila þannig að ekki verður kvartað undan því að menntmrn. komi ekki að málefnum grunnskólans og sinni því hlutverki sem því ber lögum og reglum samkvæmt og ég mun áfram vinna að því að þetta samstarf verði náið og samráðið mikið, jafnt við kennara sem sveitarfélögin.

Að því er varðar viðhorf ríkisvaldsins til launamála kennara er að sjálfsögðu nærtækast að vísa til samkomulags sem gert var 7. júní á milli ríkisvaldsins og framhaldsskólakennara og síðan samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu framhaldsskólakennara og gildir til næstu þriggja ára. Þar kemur fram af hálfu ríkisvaldsins hvernig það telur skynsamlegt að standa að kjarasamningum við kennara. Þeir liggja skýrir fyrir og ef menn vilja kynna sér þá samninga geta þeir kynnt sér hvernig ríkisvaldið hefur staðið að kjarasamningum við kennara sem hlutu samþykki í allsherjaratkvæðagreiðslu kennara. Þar er um það að ræða að ríkissjóður og ríkisvaldið þurfti að taka afstöðu til kjaramála kennara og komast að samkomulagi við þá. Hins vegar ákváðu sveitarfélögin í vor að fresta samningum við grunnskólakennara fram á haustið. Ég ítreka það sem ég hef sagt að ég vona að samkomulag takist í þeirri viðkvæmu og vandmeðförnu deilu á næstu dögum.