Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:38:50 (696)

1997-10-21 14:38:50# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:38]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram að nýju frv. ríkisstjórnarinnar um háskóla. Ég fagna því að fram er komið frv. um rammalöggjöf um háskólastigið þó að þetta frv. sé að sumu leyti ítarlegra en ég hefði talið nauðsynlegt sem rammalöggjöf t.d. varðandi stjórnunarþátt ríkisháskólanna. En að öðru leyti er frv. lítið annað en staðfesting á því sem er og kannski þeim skilningi sem almenningur hefur --- að allir skólar sem gera stúdentspróf að inntökuskilyrði kallist háskólar.

Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni bað Háskóli Íslands um það í vor þegar þetta frv. var til umræðu að afgreiðslu þess yrði frestað fram á haust. Ég tel að sú frestun hafi verið til mikilla bóta jafnvel þó að það sé lagt fram svo til óbreytt að nýju. Það er hins vegar nokkuð athyglisvert að þrátt fyrir ýmsar breytingartillögur frá Háskóla Íslands þá hefur í engu verði tekið mið af þeim og þess vegna tek ég undir orð síðasta ræðumanns að það virðist sem þarna sé um nokkur átök að ræða á milli ráðuneytisins og háskólans.

Alvarlegustu athugasemdirnar sem fram komu í umsögn Háskóla Íslands voru annars vegar um skipan háskólaráðs og hins vegar um það að menntmrh. skuli skipa rektor. Í umsögn Háskóla Íslands er minnt á að í háskólalögunum frá árinu 1909 segir að það beri að tilkynna Stjórnarráðinu um kjör rektors. Það er augsjáanlega nokkuð annar stíll yfir þessari hugsun, stíll akademísks frelsis, sem ekki er jafntær í því frv. sem hér er til umræðu. En þar segir í 14. gr. að menntmrh. skipi rektor til fimm ára í senn. Ég tel mun vænlegra og í raun nauðsynlegt til að undirstrika bæði formlega og ekki síður táknrænt að það sé almenn regla að rektor sé kosinn af háskólasamfélaginu og sæki umboð sitt þangað og ekkert annað. (Menntmrh.: Frv. gerir ráð fyrir því.) Þannig er fyrirkomulagið nú og því tel ég æskilegra að rektor verði kjörinn og ákvæðið um skipan menntmrh. verði fellt út úr textanum. (Menntmrh.: Hv. þm. las ekki alla greinina.) Það stendur skýrt í þessari ákveðnu grein að menntmrh. skipi rektor. (Menntmrh.: Samkvæmt tilnefningu.) Samkvæmt tilnefningu, já, já, það er alveg sama þó að það sé tilnefning. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það fer saman að rektor sé kjörinn og þetta frv. en munurinn er sá að þetta frv. gerir ráð fyrir að ráðherra skipi rektor en núverandi löggjöf og sú sem í gildi var árið 1909 gerði ráð fyrir því að rektor væri kjörinn og að það kjör væri tilkynnt til Stjórnarráðsins. Það er grundvallarmunur á þessum atriðum, ekki síst táknrænt séð og til þess að undirstrika akademískt frelsi háskólans.

Varðandi skipan háskólaráðs, herra forseti, þá er það skoðun mín að það sé heppilegt að stokka upp núverandi háskólaráð. Ég tel að sú skipan ráðsins sem nú er komi svo til í veg fyrir það, ekki bara nú heldur á næstu árum, að konur t.d. sitji í háskólaráði og að yngri kennarar háskólans sem enn eru ekki orðnir prófessorar --- þeir fara í gegnum framgangskerfi --- eigi aðild að háskólaráði. Þess vegna finnst mér í raun og veru ekki vitlaus hugmynd að háskólaráð sé endurskipulagt í þá veru sem hér er lagt til að einhverju leyti. Og ég tel ekki óeðlilegt að svokallaðir þjóðlífsfulltrúar fái sæti í háskólaráði. Og þó að það sé umdeilanlegt að þessir þjóðlífsfulltrúar séu skipaðir af menntmrh. þá sé ég ekki í fljótu bragði hver annar gæti gert það.

Rök Háskóla Íslands gegn fyrirhuguðum breytingum á háskólaráði eru fyrst og fremst þau að þar með hætti háskólaráð að vera fulltrúaráð allra deilda skólans sem gerir það bæði skilvirkt og lýðræðislegt í senn.

[14:45]

Háskólinn sættir sig því illa við það að fulltrúar kennara verði aðeins fimm í ráðinu þegar deildir háskólans eru mun fleiri. Það þyrfti, ef eitthvað, að fjölga í háskólaráði að þeirra mati, m.a. til þess að fulltrúar námsbrauta eigi þar fulltrúa. Það er von mín að þessi deila leysist á farsælan hátt með sérlögum um Háskóla Íslands á þann veg sem menntmrh. gat um hér áðan, þ.e. að til verði stærri nefnd sem þjóni þessu fulltrúahlutverki, en síðan gæti hún myndað þetta minna háskólaráð eða með hinni leiðinni sem menntmrh. gat einnig um að Háskóli Íslands verði stokkaður upp í sérskóla. Samkvæmt 11. gr. frv. mundi þessi skipan háskólaráðs þá ekki eiga við skólann.

Þessi skólahugmynd er mjög umdeild innan Háskóla Íslands og því tel ég rétt að bíða eftir því að frv. frá Háskóla Íslands komi áður en séð verður hvort sú skipan háskólaráðs sem hér er lögð til samkvæmt rammalöggjöfinni heftir störf Háskóla Íslands að einhverju leyti. En það er að mínu mati nauðsynlegt að tala sérstaklega um Háskóla Íslands þegar þessi rammalöggjöf er rædd vegna þeirrar gífurlegu sérstöðu sem hann hefur í þessu samhengi.

Önnur atriði þessa frv. sem ég vil vekja athygli á á þessu stigi málsins eru nokkur. Í fyrsta lagi á samkvæmt þessu frv. á að fella úr gildi lög um skólakerfi. Ástæðan sem er gefin upp er sú að þar með séu þau lög orðin óþörf en það er umhugsunarvert hvort hin raunverulega ástæða er ekki önnur, nefnilega sú að samkvæmt lögunum um skólakerfi má ekki leggja á nein skólagjöld því að þar stendur í 6. gr.: ,,Kennsla er veitt ókeypis í öllum opinberum skólum. Í einkaskólum, sem kostaðir eru að meiri hluta af almannafé, eru skólagjöld háð samþykki menntamálaráðuneytisins.``

Ég tel að ekkert mæli gegn því að þessi lög séu áfram í gildi og þau rök sem nefnd eru í greinargerðinni með því að afnema þau séu mjög veik. Þess vegna og vegna ummæla hæstv. menntmrh. í Morgunblaðinu í ágúst sl. og einnig á internetinu að undanförnu um að skýrsla OECD mæli með skólagjöldum á háskólastigi til að leysa vanda þess skólastigs, þá vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé að leggja af lög um skólakerfi í þeim tilgangi að geta lagt á skólagjöld í háskólanum. Og í raun og veru opnar þetta fyrir skólagjöld í framhaldsskólunum líka.

Í framhjáhlaupi vil ég einnig geta þess að í 7. gr. laganna um skólakerfi er ákvæði sem er mjög merkilegt vegna þess að þar segir svart á hvítu að í öllu starfi skóla skuli konur og karlar njóta jafnréttis í hvívetna, jafnt nemendur sem kennarar. Þetta er skýrasta ákvæðið að þessu leyti í íslenskri löggjöf sem nú á að fara að fella niður og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann fyrirhugar að bæta sambærilegu ákvæði við lögin sem gilda um hvert skólastig ef þessi umræddu lög um skólakerfi verða felld úr gildi.

Herra forseti. Ég var þeirrar skoðunar þegar frv. um framhaldsskóla var til umræðu á síðasta þingi að æskilegt hefði verið að hafa þetta frv. til hliðsjónar til að ljóst væri hvar mörkin liggja á milli þessara skólastiga. Í því sambandi voru oft nefndir skólar eins og Iðnskólinn, Þroskaþjálfaskólinn, Fósturskólinn o.s.frv. sem um skeið hafa verið á mörkum þessara skólastiga. Nú er ljóst að stefnan er sú að þeir skólar sem krefjast stúdentsprófs við inngöngu og fullnægja ákveðnum skilyrðum varðandi eftirlit og stjórnun eru háskólar, án tillits til þess hvort um akademíska iðkun eða rannsóknir verður að ræða.

Ég vil taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, Svanfríðar Jónasdóttur, um þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. Kostur þeirra er þó sá að það er ekki mótsögn á milli 2. og 5. gr. núna og að því leyti fagna ég þessari breytingu. En ég er sannfærð um að hún mun valda mjög mörgum miklum vonbrigðum, ekki síst þeim sem telja sig vera að fara í háskóla en eru kannski að fara í 2. eða 3. flokks háskóla miðað við venjulegar skilgreiningar. En sú breyting að ekki allir háskólar séu rannsóknarháskólar er skynsamleg af fjárhagsástæðum, þ.e. það er mun ódýrara að reka háskóla ef ekki þarf að skilgreina starfsskyldu hvers einasta kennara allt að því upp í helming í rannsóknir. Þetta var afstaðan í Svíþjóð þegar svokallaðir högskolor voru stofnaðir og í Bretlandi þegar svokallaðir polytechnics voru stofnaðar. Síðan eru um tveir áratugir og nú er aðgreining þessara skóla og rannsóknarháskólanna æ minni því það kom fljótlega upp mjög sterk krafa allra háskólanna að verða rannsóknarháskólar. Það er því mjög líklegt að háskólastigið vaxi mjög mikið á komandi árum og áratugum, ekki síst ef framhaldsskólinn verður styttur um eitt ár eins og stefnumótunarnefnd hefur lagt til. Það mun að mínu mati verða til þess að æ fleiri taka stúdentspróf og megnið af starfsnámi flyst á háskólastig. Þetta er þróun sem er í takt við þróunina annars staðar, samanber t.d. athyglisverða úttekt á þróun háskóla í heiminum í tímaritinu The Economist frá 4. október sl. Þar kemur fram að í Kanada skráir um 40% árgangs sig í háskóla, yfir 35% í Bandaríkjunum og lítill munur er í Frakklandi og í Nýja-Sjálandi. Tölurnar eru hins vegar mun lægri í Þýskalandi eða í kringum 10%, enda er verkmenntun á framhaldsskólastigi mjög sterk í Þýskalandi og skilgreining á háskólum mjög þröng.

Hér á landi telst mér til að um 25% árgangs skrái sig í háskóla eins og er og það bendir því allt til að þróunin hér verði líkari því sem þekkist í Kanada og í Bandaríkjunum en í Þýskalandi. Því mundi ég búast við að fjölgi þeim upp í 35--40% sem skrá sig í háskóla miðað við þessar skilgreiningar á næstu 15 árum eða svo og að verkmenntun á framhaldsskólastigi komist ekki upp á alvarlegt plan nú fremur heldur en á sl. 20 árum.

Virðulegi forseti. Það sitja enn eftir nokkrar spurningar og vangaveltur eftir þessa umfjöllun um frv. Þó að halda megi því fram að þessi löggjöf sé að sumu leyti óþörf, samanber ummæli forsrh. um að ekki beri að fjölga lögum að óþörfu, þá mun hún að mínu mati auðvelda alla skriffinnsku í kerfinu, samanburð á milli skóla og gera eftirlit skilvirkara. Og ég fagna sérstaklega ákvæðum 19. og 20. gr. um hvernig fjárveitingum verður hagað, þ.e. að gerðar verði fimm ára áætlanir og gert reikniklíkan sem á að byggja á fjölda stúdenta. En það eru líka hættur eða ókostir við þetta frv. og þar vil ég nefna í fyrsta lagi að stjórnskipulag ríkisháskólanna er að mínu mati of þröngt eða of aðþrengt fyrir alla þá flóru skóla sem mun heyra undir þessi lög, sem verða mjög mismunandi, bæði að eðli og stærð.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur hér áðan hvort þessi þröngi stjórnunarstakkur verði til þess að æ fleiri háskólar sækist eftir því að verða sjálfstæðari, t.d. sem sjálfseignarstofnanir eða einkaskólar, til að losna úr þessari spennitreyju stjórnkerfisins. Að mínu mati gengur þessi stöðlun t.d. á háskólaráði of langt því að þarna verður um mjög marga og mismunandi skóla að ræða í fyrirsjáanlegri framtíð.

Síðan vil ég nefna ákvæði í 6. gr. um viðbótarinntökuskilyrði, að það verði sem sagt möguleiki fyrir háskóla að neita að taka inn nemendur með stúdentspróf og krefjast viðbótarinntökuprófs. Þetta telja sumir að ætti að vera spor í rétta átt fyrir Háskóla Íslands vegna þess að aðrir sambærilegir skólar eins og t.d. Kennaraháskólinn geti gert slíkt, en akademískt séð má líta á það sem skref aftur á bak þar sem inntökupróf voru t.d. aflögð við Kaupmannahafnarháskóla árið 1855 og stefnan hefur víðast hvar verið sú að það sé lagt á framhaldsskólana að sjá um að stúdentspróf gildi inn í háskóla. Það getur auðvitað átt annað við um sérskóla eins og t.d. leiklistarskóla eða myndlistarskóla þegar stúdentsprófin prófa ekki þá leikni sem skiptir máli og hugsanlega á þetta ákvæði um viðbótarinntökuskilyrði og inntökupróf sérstaklega við um listaháskóla. Ég get alveg séð að það eigi við í þeim tilvikum.

Ég ítreka að ég tel að það sé hætta í þessu frv. að menntmrh. skipi rektor (Forseti hringir.) og síðasta hættan sem ég sé eins og ég nefndi áðan er sú að ráðherra opnar að mínu mati á að skólagjöld verði tekin upp með því að fella úr gildi lögin um skólakerfi en reynslan bæði frá Bretlandi að undanförnu og víðar sýnir að skólagjöldin þurfa alls ekki að tryggja að það komi auknar fjárveitingar til háskóla.