Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:48:46 (705)

1997-10-21 15:48:46# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:48]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. þegar hann tekur að sér að verja stefnu Tony Blairs varðandi skólagjöld í Bretlandi og útskýra það fyrir hv. þingheimi. Það er mál sem Bretar takast á um en það er vitað að ríkisstjórn Verkamannaflokksins hefur þá stefnu að innheimta skólagjöld í breskum háskólum. Telji hv. þm. sér fært að verja þá stefnu vegna þess að breska stjórnin fylgi henni þá er það mál sem ég ætla ekki að blanda mér í.

Varðandi seinni athugasemdina, þá er það tillaga sem ég hef gert af því að ég tel það vera í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að hafa þá skipan varðandi tengsl ráðuneytis og háskóla sem mælt er fyrir um í frv. Ég tel að það sé í samræmi við þær stjórnsýslukröfur sem nú eru gerðar og það samhengi sem þarf að vera á milli stjórnstiga. Ef þingmenn, sem hafa samþykkt stjórnsýslulögin og gengið í gegnum og lesið skýrslur umboðsmanns Alþingis og allar þær úttektir sem gerðar hafa verið á framkvæmd þeirra laga, telja að þessi tilhögun breyti í huga starfsmanna háskólans stöðu hans með táknrænum hætti og ef þeir telja að sú tilhögun brjóti í bága við góða stjórnsýsluhætti og sýni það með rökum, þá skal ég taka málið til skoðunar. Ég hef ekki heyrt neitt sem mælir með því að þessi leið sé ekki farin ef menn vilja fylgja góðum og réttum stjórnsýsluháttum. Hið táknræna verður stundum að víkja fyrir því sem er raunverulegt þegar menn eru að fjalla um jafnviðkvæm mál og það sem varðar réttarstöðu borgaranna og tengsl einstakra stjórnsýslustiga. Á því máli er tekið í þessu frv. því það er sniðið eftir nýjum stjórnsýslulögum.

Hér er ég með skýrslu OECD og það er alveg ljóst að í þeirri skýrslu kemur fram sú megintillaga varðandi fjármögnun Háskóla Íslands að þar verði tekin upp skólagjöld. Það hefur enginn deilt um það. Hv. þm. sem vitnar oftar til þessarar skýrslu en nokkur annar hlýtur að hafa lesið þennan kafla eins og aðra kafla skýrslunnar.