Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:52:07 (707)

1997-10-21 15:52:07# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:52]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil mótmæla því að hækkun innritunargjalda í Háskóla Íslands hafi leitt til þess að fjárframlög til skólans drægjust saman. Sú hækkun sem var ákveðin þegar þau voru hækkuð í 24.000 kr. leiddi ekki til þess. Það eru engin rök fyrir því og ekki hægt að halda því fram ómótmælt þegar slíku er slegið fram.

Það sem ég segi er að ef menn vilja tryggja góða stjórnsýslu í Háskóla Íslands þá eiga þeir að hafa þá skipan sem ég mæli fyrir um í þessu frv. og óska eftir að verði samþykkt á hinu háa Alþingi. Ef menn vilja víkja góðri stjórnsýslu til hliðar vegna táknrænna tilfinningarsjónarmiða gef ég ekki mikið fyrir vilja manna til að stjórnarhættir í landinu verði góðir, eins og haldið er að okkur ráðherrum hvað eftir annað af hv. alþm. í umræðum á hinu háa Alþingi.