Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:53:12 (708)

1997-10-21 15:53:12# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:53]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess hvernig fjallað er um umræður um OECD-skýrsluna vil ég gjarnan fara yfir það hvað kemur fram í skýrslunni. Þar kemur nefnilega fram að aðeins fjögur OECD-lönd verja hlutfallslega minna fjármagni til menntamála en Ísland þrátt fyrir að hlutfall ungs fólks á skólaaldri á Íslandi sé með því hæsta sem þekkist innan OECD. Einnig hitt að sérstaklega áberandi er að ekkert OECD-land ver hlutfallslega eins litlu fjármagni til háskólamála og Ísland. Ef tekið er tillit til þjóðarframleiðslu, sem er mjög há á Íslandi, er Ísland hlutfallslega langneðst af OECD-ríkjunum hvað varðar framlög til menntamála. Þetta eru bara staðreyndir sem koma fram í skýrslunni og eðlilegt að menn vitni til þeirra. En hvernig menn bregðast síðan við þeim staðreyndum, það er pólitík. Um það erum við hugsanlega ósammála. En við deilum ekki um þetta sem skráð er og eru niðurstöður og staðreyndir.

Aðeins vegna umræðu um skólagjöld. Mér heyrist ráðherrann vera fylgjandi því að menn horfi á það sem OECD leggur til eins og einhvern heilagan sannleik. Þá á það sama ekki við á Íslandi og í öðrum löndum. Það kemur mjög skýrt fram þar sem hæstv. ráðherrann er að reyna að réttlæta skoðun sína á skólagjöldum með því að þýða upp úr grein The Economist og setja inn á netið. En þar segir í lauslegri þýðingu hæstv. ráðherra, ef ég má vitna, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi er félagslega sanngjarnt að innheimta skólagjöld: háskólastúdentar koma yfirleitt frá fjölskyldum, sem standa bærilega fjárhagslega, ...``

Ég segi nú bara, úr hvaða samfélagi er þessi glósa tekin? Ekki úr því íslenska. Hér er verið að vitna í samfélag sem er mun stéttskiptara en okkar. Einnig segir hér:

,,Auk þess er háskólamenntun góð einkafjárfesting, sem stuðlar að hærri launum nemandans síðar á ævinni.``

Og það á að réttlæta skólagjöld. Það á heldur ekki við um íslenska samfélagið. Hér er verið að nota rök sem geta hugsanlega gilt í einhverju allt, allt öðru samfélagi.