Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:55:43 (709)

1997-10-21 15:55:43# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. hafi nú ekki þær rannsóknir á bak við sig til að fyllyrða að The Economist fari með mál þannig að það geti ekki líka vísað til íslenska þjóðfélagsins. Ég held að það þurfi nú meira en svona yfirlýsingar til að draga í efa að það geti ekki líka átt við hér sem þetta blað segir um þessi mál. Það sem ég gerði var að setja þetta fram til að menn hefðu aðgang að því í þessum umræðum. Ég tel að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Ég hef sagt það líka sem ég held að hafi komið fram í því sem hv. þm. vísaði til, að það sem um er að ræða fyrir íslenska samfélagið er að sjálfsögðu að búa þannig að sínu skólakerfi að það sé vel samkeppnishæft við aðrar þjóðir. Ef aðrar þjóðir eru að fara inn á þessar brautir til að efla sitt skólakerfi og við grípum ekki til svipaðra ráðstafana til að setja meira fé frá skattgreiðendum inn í skólakerfið þá drögumst við aftur úr. Ég varpaði þessu m.a. upp og menn þurfa að velta þessu fyrir sér. Hið sama á við þegar menn bera saman ríkisrekna skóla annars vegar og einkarekna skóla hér á landi að það er visst áhyggjuefni miðað við það hvernig staðið er að rekstri ríkisskólanna að þeir geta dregist aftur úr einkareknu skólunum sem hafa meira svigrúm til að afla sér sértekna en ríkisskólarnir. Það eru þessi sjónarmið sem ég tel að menn þurfi að hafa í huga þegar um þessi mál er rætt og stöðu háskólanna að þessu leyti.

Þegar litið er t.d. á tölur OECD varðandi grunnskólastigið og framhaldsskólastigið og þær bornar saman við skólatíma hér og annars staðar þá jafnast sá munur sem menn eru að tala um og leggja fjárhagslegt mat á OECD. Það er á háskólastiginu sem menn þurfa að gera bragarbót. Ég tek undir það og tel að bæði í fjárlögum þessa árs og í fjárlagatillögunum fyrir næsta ár sé tekið á málefnum háskólastigsins af ríkisstjórninni í tillögum hennar sem sýnir hvað við erum að gera og fara inn á nýjar brautir.

Ég hef einnig lýst því yfir að ég er reiðubúinn til að ganga til samninga við Háskóla Íslands um að við á ákveðnu árabili brúum það bil sem hann telur enn vera á milli til að hann geti starfað við sómasamleg skilyrði.