Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:16:06 (716)

1997-10-21 16:16:06# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:16]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér finnst ráðherrann óþarflega viðkvæmur fyrir þessum vinsamlegu ábendingum sem ég er með til hans í sambandi við menntamál. Ég fer ekkert ofan af því að ég tel að þetta sé mjög vont mál eins og hann setur það upp. Hann leggur frv. fram og kynnir það og ræðir það hér í allan dag á þeim forsendum að skólagjöld séu mjög mikilvæg.

Auk þess er í frv. þessu gert ráð fyrir því í raun og veru að ráðherrann geti ráðið úrslitum um skipan rektors svo ég nefni eitt dæmi. Þar með er auðvitað verið að brjóta niður kjarnann í sjálfstæði háskólanna þannig að það er auðvitað eðlilegt að þingmenn bregðist hart við í þessu máli. Og ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég tel að umræðan hér á næstu vikum og mánuðum um sjálfstæði háskólanna snúist um örlög þeirra í íslensku samfélagi og möguleika til þess, ekki bara almennt gagnvart nemendum sínum til þess að láta gott af sér leiða, heldur möguleika til að taka þátt í eðlilegri þróun og uppbyggingu íslenska þjóðfélagsins til að stuðla þar að betri lífskjörum. Og ef háskólarnir eru sviptir frelsinu með þeim hætti sem hér er verið að tala um, þá þýðir það í raun og veru ekki bara lakari stöðu skólanna heldur líka almennt lakari stöðu fyrir lífskjörin í landinu og líka í rauninni veikari menningarlega stöðu almennt séð fyrir þessa þjóð vegna þess að háskóli er ekki bara skólastofnun heldur líka menningarstofnun.