Kennaraháskóli Íslands

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:21:41 (721)

1997-10-21 16:21:41# 122. lþ. 13.8 fundur 167. mál: #A kennara- og uppeldisháskóli Íslands# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hér er endurflutt frv. frá síðasta þingi á þskj. 167, frv. til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands. Þetta frv. er byggt á frv. til laga um háskóla sem hefur verið hér til umræðu fyrr í dag og tekur mið af þeim meginreglum sem mótaðar eru í því frv. og þeirri rammalöggjöf sem það mótar.

Hér er mælt fyrir um það að fjórir skólar, þ.e. Fósturskóli Íslands, Íþróttakennaraskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands sameinist í einn skóla, Kennara- og uppeldisháskóla. Hugmyndir um samstarf og sameiningu þessara menntastofnana hafa verið að mótast á undanförnum árum og m.a. í nefndaráliti um eflingu uppeldis- og kennaramenntunar á Íslandi sem menntmrn. gaf út í mars l995 er lagt til að þessir skólar verði sameinaðir í einn skóla. Það frv. sem hér liggur fyrir var samið af embættismönnum í menntmrn. ásamt Ólafi H. Jóhannssyni, endurmenntunarstjóra Kennaraháskóla Íslands, og hefur verið unnið í samvinnu við þá sem í þessum skólum starfa og hafa veitt þeim forustu. Á sl. vori, áður en frv. var lagt fram, var það ítarlega kynnt fyrir starfsmönnum allra skólanna og hefur verið rætt við þá á fundum og farið yfir þau atriði sem eru til athugunar þegar staðið er að jafnumfangsmikilli sameiningu skólastofnana og gert er með þessum hætti.

Það hefur raunar verið sagt að þetta sé eitt stærsta verkefnið sem ráðist hefur verið í á vegum ríkisins við að sameina ríkisstofnanir og þess vegna mjög mikið í húfi að vel takist til. Það varð að ráði að í apríl sl. skipaði ég verkefnisstjórn til að undirbúa stofnun Kennara- og uppeldisháskóla Íslands. Í henni sitja Haukur Ingibergsson, forstöðumaður Hagsýslu ríkisins, sem er formaður, Stefán Stefánsson, deildarstjóri í menntmrn., og Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er samkvæmt erindisbréfi að samhæfa undirbúning stjórnvalda, greina verkefnið í framkvæmdaþætti, safna upplýsingum um hvern þátt, gera framkvæmdaáætlun um stofnun hins nýja skóla og niðurlagningu skólanna fjögurra og vinna á annan hátt að því að framkvæmd þessara breytinga geti gengið vel og örugglega fyrir sig.

Verkefnisstjórnin hefur haldið marga fundi og rætt við starfsmenn og stjórnendur þessara skóla og þegar hafa menn tekið ákvarðanir sem miða að því að sameina ýmsa þætti í starfi þeirra. Þess vegna er mjög brýnt, herra forseti, að þetta frv. hljóti brautargengi hér á hinu háa Alþingi þannig að unnt verði að vinna markvisst áfram að sameiningu skólanna. Raunar skildi ég afgreiðslu hv. menntmn. þannig sl. vor, bæði á þessu frv. og eins á frv. um háskóla, að ætlunin væri að nefndin lyki meðferð þeirra fyrir áramótin. Vona ég að við það verði staðið því að fyrir þá sem í þeim skólastofnunum starfa sem hér er um að ræða er mjög mikið í húfi að ekki skapist óvissa eða verði hik varðandi markvissa sameiningu skólanna og það mikla starf sem þar er unnið því að í þessum skólum er veitt kennsla fyrir alla þá sem starfa í leikskólum og grunnskólum, þeim skólastigum sem menn draga aldrei af sér við að telja hin mikilvægustu í okkar skólakerfi. Þótt menn vilji ekki gera lítið úr framhaldsskólastiginu eða háskólastiginu, þá er ljóst að það starf sem unnið er í leikskólum og grunnskólum leggur grunninn að frekari menntun einstaklinganna og þess vegna er mikilvægt að umgjörð kennaramenntunarinnar verði sem best. Ég tel að með því frv. sem hér er lagt fram sé henni búinn sá starfsrammi sem er við hæfi þegar um jafnmikilvæga stofnun er að ræða.

Það hafa oft orðið umræður um það á undanförnum árum hvort ekki væri rétt að hér yrði fjögurra ára háskólanám fyrir kennaranema. Ég hef sagt það vegna þessa frv. að óeðlilegt sé að í frv. sé ákveðið hvað kennaranámið sé langt, en hins vegar muni það ráðast af ákvörðunum skólans sjálfs eins og það er ákveðið í öðrum háskólum hvað námið er langt á einstökum námsbrautum. Það liggur nú fyrir greinargerð frá öllum þeim skólum á háskólastigi sem veita kennaramenntun um skipan kennaramenntunar og þar er mælt með því að um fjögurra ára nám í þessum kennara- og uppeldisháskóla verði að ræða. Í sjálfu sér hef ég ekki lagst gegn því en lagt áherslu á að um það yrði síðan samið við ráðuneytið fyrir hönd fjárveitingavaldsins og gengið frá þeim málum á þann veg að fjármál starfseminnar séu vel tryggð.

Þetta held ég að sé það helsta, herra forseti, sem ég þarf að láta koma fram hér. Vegna þess sem sagt var um frv. sem var til umræðu næst á undan þessu um það hvernig hægt væri að útfæra slíka rammalöggjöf fyrir einstakar stofnanir, þá er það gert hér með einföldum og skýrum hætti og menn sjá að þar er tekið á einstökum málum með hliðsjón af þessum skóla, en einnig gefið fordæmi um það hvernig hægt er að semja slíka löggjöf. Hún þarf ekki að vera löng eða ítarleg. Þvert á móti er þetta einföld löggjöf og skýr og það er í samræmi við það meginmarkmið hinna nýju háskólalaga og þessara laga að skólarnir hafi sem mest svigrúm sjálfir til að þróast og mótast samkvæmt eigin ákvörðunum á grundvelli samstarfs við ríkisvaldið og innan þess ramma sem þeim ber að lúta sem ríkisstofnunum í samræmi við lög er gilda um stjórnsýslu og aðra slíka þætti.

Þetta eru höfuðatriði frv. Að því er varðar breytingar frá því að það var lagt fram á síðasta þingi, þá eru nýmæli í ákvæði til bráðabirgða sem þar sem tekið er mið af ábendingum frá verkefnisstjórninni sem taldi að ákvæði til bráðabirgða þjónuðu betur sínum tilgangi með þeim hætti sem lagt er til í þessu frv. Þar hefur orðið nokkur breyting á frá því að frv. var lagt fram á vorþinginu á þessu ári.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri um frv. Það var ítarlega rætt á síðasta þingi og ástæðulaust fyrir mig að setja á langar ræður um það.