Kennaraháskóli Íslands

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:47:32 (724)

1997-10-21 16:47:32# 122. lþ. 13.8 fundur 167. mál: #A kennara- og uppeldisháskóli Íslands# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:47]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. menntmrh. situr í hliðarsal þannig að ég vona að hann heyri hvað ég segi. Það frv. sem hér er til umræðu er að mínu mati merkilegt bæði vegna þess að þetta er fyrsta sérháskólafrv. sem samið er með hliðsjón af rammalöggjöfinni sem áðan var til umræðu, en ekki síður vegna hins að þar er boðuð sú stefnubreyting í uppeldismenntun þjóðarinnar að sameina starfsemi eftirtalinna stofnana í eina háskólastofnun: Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Þetta segir reyndar aðeins í greinargerð, en þess sér hvergi í raun stað í frv. sjálfu að menntun leikskólakennara eða menntun þroskaþjálfa eða þess vegna menntun kennara eigi að eiga sér stað í þessum háskóla.

Í 1. gr. frv. er talað um að veita eigi nemendum menntun til þess að gegna störfum á sviðum kennslu, uppeldis og umönnunar og til að sinna fræðilegum rannsóknum á þessu sviði. Í 11. gr. segir síðan að eignir Kennaraháskólans, Fósturskólans, Íþróttakennaraskólans og Þroskaþjálfaskólans eigi að renna til þessarar nýju stofnunar, Kennara- og uppeldisháksólans. Og í 15. gr. segir að ákvæði í lögum um fyrrnefnda skóla skuli felld úr gildi. Það er allt og sumt sem segir t.d. um það að í þessari stofnun eigi að mennta leikskólakennara og að það eigi að mennta þroskaþjálfa.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst þetta mjög furðulegt þar sem hér er um sérlöggjöf skólans að ræða. Samkvæmt þessum texta þarf ekki lagabreytingu til þess að hætta við kennslu þroskaþjálfa eða leikskólakennara fremur en að hefja hana. Þetta tel ég mjög varhugavert og vil því spyrja hæstv. menntmrh., og vona að hann heyri mál mitt, hvort ekki hafi komið til álita að tilgreina nánar hvaða námsbrautir eigi að vera í boði innan Kennara- og uppeldisháskólans. Sömuleiðis er ekkert kveðið á um hvort B.Ed.-námið eigi að vera þriggja eða fjögurra ára nám, sem ég tel mjög til vansa. Ég tel að lengingin úr þremur í fjögur ár geti ekki verið ákvörðun framkvæmdarvaldsins því að það mun verða til þess að við þurfum lengi að bíða eftir því að námið verði lengt í fjögur ár.

Frv. var eins og hér hefur komið fram lagt fram á síðasta þingi og sent út til umsagnar og ég tek eftir því að í umsögn frá Hinu íslenska kennarafélagi er tekið í sama streng. Þar segir, m.a., með leyfi forseta:

,,Kennarafélögin telja æskilegt að í lögum um Kennara- og uppeldisháskóla verði kveðið á um lögboðið hlutverk, það er að segja kennaranám fyrir leikskólakennara, grunnskólakennara, íþróttakennara, uppeldis- og kennslufræði fyrir framhaldsskólakennara og nám fyrir þroskaþjálfa.``

Þá vekja fulltrúar HÍK athygli á því í þessari umsögn að í fskj. frá fjmrn. sem fylgir með frv. er gefið í skyn að rannsóknarskylda þessa háskóla verði minni en í öðrum háskólum og í framhaldi af því mæla fulltrúar HÍK með því að það verði skylda að setja á stofn rannsóknarstofnun í stað heimildarákvæðisins um slíkt í 10. gr. Þessi ummæli HÍK sýna vel að umræðan um rannsóknarskyldu sem fram fór áðan í tengslum við rammalöggjöfina um háskóla á svo sannarlega við Kennara- og uppeldisháskólann, jafnvel þó að sá skóli sé sem betur fer skilgreindur sem rannsóknarstofnun í 1. gr. frv.

Í umsögn Kennaraháskólans sjálfs er gerð athugasemd við að fulltrúar háskólamenntaðra starfsmanna sem ekki eru kennarar eiga ekki að fá sæti í háskólaráði og mælt er með því að við 5. gr. bætist 5. tölul. fyrir slíka fulltrúa, þ.e. fulltrúar háskólamenntaðra starfsmanna sem ekki eru kennarar --- það eru ýmsir námsráðgjafar, það eru mjög margir slíkir starfsmenn við Kennaraháskóla Íslands --- eigi aðild að háskólaráði. Ég vil taka undir þá ábendingu frá Kennaraháskólanum og tel að hún samræmist rammalöggjöfinni því að gert er ráð fyrir að það megi vera að hámarki tíu fulltrúar í háskólaráði, en samkvæmt þessu frv. er eingöngu gert ráð fyrir níu fulltrúum í háskólaráði Kennara- og uppeldisháskólans.

Ég get hins vegar ekki á sama hátt tekið undir þá ósk sem fram kemur í umsögn Kennaraháskólans um þetta mál, að ákvæðið um dómnefndir fari út úr frv. og inn í rammalöggjöfina þar sem það er alveg ljóst af rammalöggjöfinni sem við vorum að ræða áðan að háskólar verða mjög mismunandi, ekki síst með tilliti til rannsóknarskyldu kennara og því hljóta að verða gerðar mismunandi kröfur til kennaraembætta eftir háskólum. Hvort dómnefnd á að vera föst eða skipuð hverju sinni eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerði athugasemd við áðan, er auðvitað álitamál. Að undanförnu hafa verið gerðar tilraunir með þá skipan sem hér er lögð til innan Háskóla Íslands og væri mjög fróðlegt að heyra hvernig sú skipan hefur reynst. Ég mun mælast til þess innan menntmn. að farið verði rækilega ofan í saumana á því hvernig hefur gengið.

Að lokum vil ég vekja athygli á nafni skólans sem komið hefur fram fyrr í umræðunni. Ég tel að það nafn sem nú er á stofnuninni sé nokkuð óþjált, fyrir utan þá hugsanlegu rökleysu sem kemur fram í því. Lagt er til í umsögnum með góðum rökum að gamla nafnið, Kennaraháskóli Íslands, verði notað áfram. Einu rökin sem ég sé gegn því er námsbraut fyrir þroskaþjálfa þar sem sú stétt getur tæplega kallast kennarar. Mér finnst það því ekki alveg rökrétt að þroskaþjálfar séu í Kennaraháskóla. En ég mæli með að það verði einnig skoðað vandlega í hv. menntmn.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. Svavars Gestssonar áðan til hæstv. menntmrh. um fyrirhugaðan flutning Þroskaþjálfaskólans til Kennaraháskólans nú þegar eða mjög fljótlega, þá má einnig benda á að fyrir löngu hafa verið tilbúnar skipulagstillögur um uppeldisháskóla sem mátti skilja sem svo að þetta væri samþykkt plagg þó að ekki væri búið að taka það til umræðu á Alþingi. Þetta endurspeglar að mínu mati að oft er löggjafinn eingöngu að staðfesta þróun sem þegar er orðin sem ég tel í raun einsýnt í þessu máli, þó að vissulega sé formlegt vald til að breyta þessari þróun hér á Alþingi og hvergi annars staðar. Ég hef ekki trú á því að vilji sé fyrir því að breyta þessu frv. í neinum aðalatriðum þó að vonandi fái það þá fínpússningu sem æskileg þykir eftir vandlega yfirferð í hv. menntmn.