Örnefnastofnun Íslands

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 17:09:27 (726)

1997-10-21 17:09:27# 122. lþ. 13.9 fundur 166. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[17:09]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. lýtur að því að tryggja sem best að þess sé gætt að skrá örnefni meðal okkar Íslendinga. Örnefni eru hluti af menningararfi okkar og áhugi á varðveislu hans beinist nú æ frekar að náttúru landsins og því sem hefur verið kallað búsetulandslag og þar skipta örnefnamál miklu máli. Hér er mælt fyrir um að á laggirnar verði komið nýrri stofnun, Örnefnastofnun Íslands, sem taki við hlutverki Örnefnastofnunar Þjóðminjasafnsins og haldi áfram því þjóðmenningarstarfi sem þar hefur verið unnið, en á víðtækari grundvelli og í samstarfi við aðra aðila í meira mæli en verið hefur auk þess sem lögð verður áhersla á þjónustuhlutverk stofnunarinnar við almenning og stuðningshlutverk við kennslu í örnefnafræðum.

Herra forseti. Þetta frv. er endurflutt. Það var lagt fram á síðasta þingi en hlaut þá ekki endanlega afgreiðslu. Fram komu athugasemdir m.a. við orðfæri í frv. og hefur það verið fært til betri vegar. Að öðru leyti er frv. óbreytt frá því að það var flutt á síðasta þingi og legg ég til að eftir þessa umræðu verði því vísað til hv. menntmn.