Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 17:50:04 (732)

1997-10-21 17:50:04# 122. lþ. 13.11 fundur 4. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[17:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þingmenn erum sammála um að það að stofna embætti umboðsmanns barna var þarft verk og mjög gott mál. Guðrún Helgadóttir þingmaður flutti það mál aftur og aftur og dropinn holar steininn og að lokum var samþykkt á Alþingi að stofna þetta embætti.

En hins vegar vil ég leiðrétta það, samt í mjög góðu og með bros á vör, að þingmaðurinn var ekki fyrst til að flytja þá tillögu hér á Alþingi. Það var nefnilega þannig að á sínum tíma fluttu Árni Gunnarsson, Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri úr þingflokki Alþfl. tillögur um aðgerðir í þágu barna. Þær voru í mörgum liðum og einn liðanna var að stofna embætti umboðsmanns barna. Þessi tillaga var flutt a.m.k. á tveimur ef ekki þremur þingum þannig að þar var byrjað að vekja umræðu um embætti umboðsmanns barna en síðan flutti Guðrún Helgadóttir sértæka tillögu um þetta og hún hefur átt stuðning okkar í því í gegnum árin.

Í þessari umræðu um ofbeldi og ofbeldisdýrkun bendi ég á að margir foreldrar vilja vernda börnin sín. Það er ofboðslega mikill þrýstingur á að börn fái leyfi til að gera allt mögulegt sem önnur börn gera hvort heldur er að horfa á sjónvarp og kvikmyndir, vera úti á kvöldin, úti fram á nætur og þeir foreldrar sem vilja vernda eða vera með ákveðinn aga eru í mikilli vörn og mikill þrýstingur er á þá foreldra. Eitt af því sem við þurfum að gera er að stuðla að því að foreldrar fái stuðning við að halda uppi ákveðnum aga og ákveðnum gildum innan veggja heimilisins og jákvæðum boðskap til barna sinna.