Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 17:52:25 (733)

1997-10-21 17:52:25# 122. lþ. 13.11 fundur 4. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[17:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tek mjög vel við leiðréttingu hv. þm. um það hvernig hugsunin um embætti eða umboðsmann barna hafi fyrst komið hingað inn í þingsalina. Mér var einfaldlega ekki kunnugt um tillöguflutning þingmanna Alþfl. og mitt minni í þessum efnum náði ekki lengra aftur en svo að ég hygg að þegar ég kom á þing eða fór fljótlega eftir það að fylgjast með málatilbúnaði var það tillaga eða frv. frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem hér var endurflutt ár eftir ár um að stofna skyldi eða koma á fót embætti umboðsmanns barna. En það er sama hvaðan gott kemur og að sjálfsögðu ber að virða það frumkvæði sem hver og einn hefur átt í þessum efnum.

Aðalatriðið er það að ég hygg að það megi segja með fullum rétti að embætti umboðsmanns barna hafi sannað sig, það hafi reynst rétt og mikilvæg ákvörðun að koma því á fót. Ég hef eftir föngum reynt að fylgjast með því sem umboðsmaður hefur verið að gera og þau mál sem þar hafa verið tekin upp. Ég lýsi því sem skoðun minni að mér hefur að langmestu leyti fundist það vera til fyrirmyndar og það hefur vakið ánægju mína.

Ég tek að sjálfsögu undir að lítið verður áunnið í þessum efnum nema foreldrar fáist til samstarfs og séu fullgildir þátttakendur í því sem þarna er á ferðinni. Þess vegna snýst málið að sjálfsögðu að nokkru leyti um að reyna að hafa áhrif á, mér liggur við að segja, hið almenna gildismat í samfélaginu og viðhorf fólks til þessara hluta, fá fólk til að vera betur á verði og reyna að vera þátttakendur í að sporna gegn þróun af þessum toga, vaxandi flæði ofbeldisefnis sem við erum ósátt við.

Sumir segja að mikilvægasti uppalandinn í samfélaginu séu allir, þ.e. þegar komið er og sagt: Allir fá að gera þetta. Allir eru úti eftir kl. 10 o.s.frv. Það er nákvæmlega þetta viðhorf sem við þurfum að breyta að menn afhendi ekki hugsunarlaust einhverjum ,,öllum`` mikilvægar ákvarðanir um uppeldi barna sinna, heldur taki þær sjálfir.