Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 17:56:35 (735)

1997-10-21 17:56:35# 122. lþ. 13.11 fundur 4. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[17:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru hinar ágætustu upplýsingar um mikilvægt starf kvennahreyfingar Alþfl. Það virðist koma á daginn að hér hafi menn lagt í púkk og þetta hafi verið hinn ágætasti félagsbúskapur sem hefur haft áhrif til góðs, tillöguflutningur þingmanna bæði úr Alþb. og Alþfl. frá liðinni tíð. Ég hef fyrir mitt leyti reynt að leggja mitt af mörkum sem foreldri og uppalandi og þingmaður. Ég mun að vísu ekki eiga þess kost að starfa í kvennahreyfingu jafnaðarmanna og þaðan af síður var ég í kvenfélagi Alþfl. fyrr á öldinni þannig að ég get ekkert annað en tekið við upplýsingum frá öðrum um það ágæta og gagnmerka starf sem þar hefur verið unnið. En lífið heldur áfram og ég held að við eigum að reyna að snúa okkur að aðstæðunum eins og þær blasa við okkur í dag og því sem fram undan er í þessum efnum og ég er sannfærður um að við þurfum á öllum góðum liðsmönnum að halda í þeirri baráttu að bæta okkar samfélag.