Aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 18:22:52 (738)

1997-10-21 18:22:52# 122. lþ. 13.13 fundur 170. mál: #A aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni# þál., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[18:22]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir innlegg hennar. Ég átti eftir að geta um nokkur atriði í fyrri ræðu minni Ég er sammála hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að einsetningin er nauðsynleg. Það sem ég vildi benda á er það hvort sú mikla fjárfesting sem menn eru að fara út í kynni hugsanlega að reynast úrelt þegar hún er loksins komin á í ljósi þessara breytinga og hvort menn ættu ekki alla vega að huga betur að áður en þeir fara út í þær miklu fjárfestingar.

Ég held að með þessari breytingu muni mikilvægi kennara vaxa. Það er alröng ályktun að halda að mikilvægi kennara minnki vegna þess að þarna er miklu meira og vandasamara starf við að leiðbeina og við að stýra verkum en er í dag. Ég er líka sannfærður um að mannleg samskipti verða meiri vegna þess að virkni nemenda vex við kennsluna, þeir þurfa ekki eins langan tíma til að læra hluti, t.d. vélritun, lestur eða tungumál vegna þess þeir stýra sjálfir hraðanum og þeir bestu þurfa ekki sífellda endurtekningu og þeir lökustu mundu ná efninu í fyrstu atrennu af því að þeir hafa nægan tíma. Virkni kennslunnar og framleiðni mun því aukast, nemendur munu læra hraðar og betur og hafa þar af leiðandi meiri tíma fyrir mannlegu samskiptin til að ræða saman, t.d. í ræðumennsku og annað slíkt sem hefur verið vanrækt að mínu mati. Mannleg samskipti munu aukast vegna þess að það er meiri tími fyrir þau en í dag.

En eins og hv. þm. benti á er þetta jafnréttismál. Bæði jafnrétti þeirra nemenda sem verða út undan í þeirri tölvuvæðingu sem er í dag, það er tryggt að þeir fá líka sinn skerf. En ekki síður er þetta jafnrétti milli kynja þar sem af einhverri ástæðu hefur komið í ljós að drengir eru miklu virkari í að tileinka sér tölvur. Í rauninni er verið að segja að allir nemendur eigi að tileinka sér tölvur, ekki bara einhver séní í skólanum eins og ef til vill hefur viljað brenna við eða drengir. Þetta er því um leið hvatning til stúlkna til að beita sér sem þær geta örugglega ekki síður en drengirnir.

Ég held að menn geri sér almennt ekki grein fyrir því hve mikilvægt er að hanna skemmtilegan hugbúnað. Við Íslendingar búum svo vel að eiga hér á landi fyrirtæki sem er mjög framarlega í gerð leikja eða hugbúnaðargerð sem nálgast það að vera leikir. Ef það tækist að tengja saman slíkan hugbúnað, þ.e. leikjahugbúnað og kennsluhugbúnað, værum við hugsanlega komin með hugbúnað sem geysilega mikill eða mjög mikill markaður yrði fyrir út um allan heim og gæti orðið útflutningsvara. Til þess að menn átti sig á þeim stærðum sem um er að ræða held ég að það sé tómt mál að tala um að búa til almennilegt forrit fyrir minna en 50 millj. kr. Kostnaður við gerð mjög góðra forrita hleypur örugglega á hundruðum milljóna. Menn þurfa því að átta sig á því að þeir búa ekki til forrit með kannski nokkur hundruð þúsundum eða einni eða tveim milljónum, þ.e. ef forritið er metnaðarfullt og á að ná til nemenda.

Ég legg áherslu á að ég ætlast til þess og býst við því að kennarar verði þeir aðilar sem muni taka þátt í því að þróa og mynda nýjan hugbúnað í samvinnu við forritara og aðra hugbúnaðargerðarmenn. En frumkvæðið á að koma frá kennurum. Það eru þeir sem kunna hlutina best. Það eru þeir sem hafa unnið með nemendum og þeir vita hvar skórinn kreppir.

Það sem mun gerast í sambandi við fjarkennslu er að frábærir kennarar geta búið og lagt mikla vinnu í að búa til frábæra fyrirlestra og frábært kennsluefni sem er svo nýtt, ekki bara af þeim þrjátíu nemendum sem kennarinn stendur frammi fyrir í hverri kennslustund, heldur af 300 eða 3.000 eða 30.000. Það verður hægt að búa til miklu betra og frábærara efni vegna þess að það eru svo margir sem nota það. Hagræðingin kemur fram með þessum miðli.

Það er spurning hvernig þessi áætlun, ef samþykkt yrði, yrði framkvæmd. Maður getur séð fyrir sér bæði það að einstaka skólar yrðu láta ríða á vaðið, prufukeyra dæmið í eitt ár eða svo, til þess að í ljós komi þeir agnúar eða gallar sem væru á kerfinu. Það er eflaust besta leiðin. Eins mætti hugsa sér að byrja ofan frá í menntakerfinu, byrja á elstu nemendunum fyrst og taka upp tölvuvæðingu þar. En ég hygg að fyrri leiðin sem ég benti á sé betri. Þetta yrði að sjálfsögðu skoðað í sambandi við að gera þessa áætlun.

Varðandi kostnaðinn af þessu þá lít ég þannig á að það eigi ekki endilega að vera alfarið á hendi ríkisins enda er það ekki í dag. Foreldrafélög og alls konar sambönd, Lions-hreyfingar og Kiwanis-hreyfingar hafa gefið tölvur. Einnig má líta til fyrirtækja sem eru í auknum mæli að bæta ímynd sína með því að rækta gras og græða upp skóga. Þau gætu líka farið að rækta menntun og búa til skemmtilegan hugbúnað fyrir nemendur. Sveitarfélögin vilja að sjálfsögðu veita góða þjónustu á þessu sviði ekki síður en öðrum og að lokum er það ríkið. Það eru sem sagt fimm aðilar sem gætu komið að fjármögnunni þannig að þetta þarf ekki endilega að vera geysilega mikill kostnaður á ríkið eins og virðist vera.

Herra forseti. Fréttir berast af því utan úr heimi að menn séu að gera sér grein fyrir þessum miðli, þessum möguleikum, og það hefur komið fram að breska stjórnin hyggst leggja ríka áherslu á samvinnu stjórnarinnar og einkafyrirtækja þannig að öllum skólum landsins verði séð fyrir tölvum eigi síðar en árið 2002. Nú er staðan þannig að 6.000 af 32.000 skólum í Bretlandi hafa tölvur. Þeir ætla að fá sér ekki ómerkari ráðgjafa en Bill Gates til að aðstoða sig við þessa tölvuvæðingu. En þeir eru enn sem komið er töluvert aftar á merinni en við Íslendingar miðað við þær upplýsingar sem ég benti áðan á. Bandaríkjamenn ætla sér, með forsetann í broddi fylkingar, að ná því markmiði að internetið verði komið inn í hverja kennslustofu fyrir árið 2000. Menn eru mjög víða að vinna að þessum málum og ég held að það sé mjög brýnt að þáltill. verði samþykkt þannig að vilji Alþingis komi fram í máli og framkvæmdarvaldið geti treyst á það að þetta sé vilji Alþingis.

[18:30]