Öryggismál í skólum

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 13:45:45 (743)

1997-10-22 13:45:45# 122. lþ. 14.1 fundur 46. mál: #A öryggismál í skólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:45]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir stöðu málsins eins og hún er. Það fer fram fræðsla og það eru forvarnir í skólum að þessu leyti og af hálfu menntmrn. hefur verið lagt á ráðin um hvernig unnt er að bæta úr því ástandi sem nú ríkir. Ráðuneytið efndi til fundar sl. vor til þess að leggja á ráðin um þetta. Það er algjörlega rangt að draga þær ályktanir af máli mínu að ég hafi ekki áhuga á því að beita mér innan skólanna og á vettvangi menntmrn. til þess að stuðla að sem öflugustum forvörnum gegn slysum. Það er alrangt að draga þá ályktun af orðum mínum áðan og því svari sem ég hef gefið. Þvert á móti er það mér mikið kappsmál að vinna að þessu samkvæmt þeim lögum og reglum sem mér ber að starfa eftir og ég hef lagt á það áherslu við endurskoðun námskránna að á þessu máli verði sérstaklega tekið. Það er rétt hjá hv. þm. að að því er umferðarfræðsluna varðar hefur árangur náðst og það þarf að ná slíkum árangri á fleiri sviðum. Menntmrn. er fúst til þess að beita sér í samræmi við þau lög og þær reglur sem um þessi mál fjalla og ráðuneytið hefur beint því til umhvrn. sérstaklega að menn taki á þessu máli þar í samræmi við þær skyldur sem á því ráðuneyti hvíla. Ef menn telja hins vegar að málaflokkurinn sé of flókinn og það þurfi að koma á betri samræmingu á milli ráðuneyta í þessu efni, þá er sjálfsagt að huga að því og taka þetta mál fastari tökum. Og ég skal ekki liggja á liði mínu til þess að það verði unnt og vil ekki láta það verða ályktun af þessum umræðum að ég hafi ekki áhuga á að beita mér í þessu máli. Þvert á móti hef ég sýnt það með mörgu móti í menntmrn. og mun halda áfram að gera það þótt hv. þm. telji að ekki sé nóg að gert, en ég mun þá herða mig enn frekar til þess að standa undir væntingum hans í þessu efni.