Áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 13:50:19 (745)

1997-10-22 13:50:19# 122. lþ. 14.2 fundur 47. mál: #A áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:50]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í svari Vegagerðarinnar við þeim spurningum sem hér liggja fyrir segir m.a.:

Enn sem komið er liggja aðeins fyrir upplýsingar um slysafjölda eins vetrar eftir að lýsing var sett upp. Það er of stuttur tími til marktæks samanburðar. Til þess þarf að bera saman þrjú ár á undan og eftir aðgerðina. Það torveldar einnig mat á áhrifum lýsingarinnar að ýmsar aðrar aðgerðir hafa verið gerðar á veginum sem auka eiga umferðaröryggi. Sé litið á slysafjölda mánaðanna desember 1996, en þá var lýsingin að mestu komin upp, til mars 1997, báðir mánuðir meðtaldir, kemur í ljós að fjöldi slasaðra er alls átta. Af þeim teljast fimm lítið meiddir en þrír mikið meiddir.

Tölur fyrir sama tímabil þrjú næstu ár á undan sýna að 11 slasast að meðaltali á ári. Þar af teljast 9,7 lítið meiddir en 1,3 mikið meiddir --- um að gera að hafa þetta nákvæmt.

Af þessu sést að fjöldi lítið meiddra sl. vetur er rúmlega helmingur þess sem hann var að meðaltali næstu þrjú árin á undan en fjöldi mikið meiddra rúmlega tvöfaldur. Óhöpp sem eingöngu leiða til eignatjóns voru þrjú á tímabilinu desember--mars sl. vetur en voru 7,7 að meðaltali á sama tíma þrjú árin á undan.

Enn skal ítrekað að þessi samanburður er ekki marktækur til að meta áhrif lýsingar. Til þess þarf að bera saman heildarslysafjölda ársins en ekki einungis vetrarins og það í þrjú ár fyrir og eftir aðgerðir.

Eins og fram kom í svari við fyrstu spurningunni er ekki tímabært að svara því hver sé áætlaður sparnaður þjóðfélagsins frá því að lýsing var upp sett. Samsetning slysa á fyrsta vetri veldur því að slysakostnaður eftir að lýsing var tekin upp reiknast hærri en meðaltal undanfarandi ára. Fjölgun mikið meiddra ræður þessu. Með hliðsjón af því sem hér er sagt telur Vegagerðin skynsamlegt að bíða með ákvarðanir um stærri áfanga í lýsingu vega þangað til marktækur samanburður liggur fyrir um reynsluna af Reykjanesbraut. Uppsetning lýsingar kostar verulega fjármuni og rekstrarkostnaður er einnig umtalsverður. Því er eðlilegt að reynslan af henni hafi áhrif á stefnumótun í þessum málum.

Ég vil í þessu sambandi taka fram sem hv. þingmenn vita auðvitað að einbreiðar brýr, blindhæðir og snögg skil milli greiðfærra vega og malarvega hafa leitt til alvarlegra slysa á undanförnum árum þannig að það er mjög hæpið að draga einhvern einn þátt alveg út úr þegar menn eru að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að draga úr slysum og auka öryggi á vegum. Það er enginn vafi á því að upplýsingar skipta þar miklu máli, eilíf áminning til manna um að fara gætilega. Ég er t.d. alveg sannfærður um að það muni koma í ljós um leið hversu brýn framkvæmd og örugg t.d. Hvalfjarðargöngin er því að ég hygg að vegurinn fyrir Hvalfjörð sé eins og nú standa sakir hættulegasti vegur landsins vegna mikillar umferðar og vegna þess hversu, ég veit ekki hvort ég má segja það, mikill fornaldarvegur hann er þótt hann sé með bundnu slitlagi.

Mér finnst það nú skynsamlegt hjá hv. þm., svo maður minnist á aðra hluti, að taka það fram á þessu þingi að allir vegir úr Reykjavík liggi í Reykjaneskjördæmi. Það er óvíst að hann verði svo kotroskinn eftir ár og þá má vera að hv. þm. Vesturl. Sturla Böðvarsson og þeir aðrir sem þar eru geti tekið upp í sig ekki síður en þingmenn Reyknesinga. Mér sýndist það a.m.k. þegar við vorum í göngunum um daginn að vel færi á með bæjarstjóranum á Akranesi og borgarstjóranum í Reykjavík og gistivinátta var þegar í stað ákveðin. Ég geri ráð fyrir að þar verði góðir veislukostir þegar þau hittast á vetri komanda.